Íslenski boltinn

Lennon í tvö ár til viðbótar hjá FH

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Lennon fagnar marki með FH í sumar.
Steven Lennon fagnar marki með FH í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Skoski framherjinn Steven Lennon hefur framlengt samning sinn við FH um tvö ár en FH sagði frá nýja samningnum á miðlum sínum í dag.

Samningur FH og Lennon er nú út 2023 tímabilið en hann hefur spilað með Hafnarfjarðarliðinu frá árinu 2014.

Sumarið 2023 yrði þá hans tíunda tímabil með FH-ingum en Lennon er 33 ára gamall.

Lennon kom fyrst til Íslands árið 2011 en spilaði til að byrja með hjá Fram. Hann hefur skorað 8 mörk í 13 leikjum með FH í Pepsi Max deildinni í sumar og er alls kominn með 96 mörk í 178 leikjum í efstu deild á Íslandi.

Lennon fær tækifæri til að halda upp á nýja samninginn í kvöld þegar FH tekur á móti HK. Hann hefur skorað fjögur mörk í síðustu tveimur leikjum og skoraði í fyrri leik liðanna í Kórnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×