Erlent

Margir aðdáendur Pokémon Go vilja sóttvarnareglurnar áfram

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Spilarar taka þátt í Pokémon Go-hátíð í Dortmund í Þýskalandi áður en kórónuveirufaraldurinn skall á.
Spilarar taka þátt í Pokémon Go-hátíð í Dortmund í Þýskalandi áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. epa/Friedemann Vogel

Margir aðdáenda snjallsímaleiksins Pokémon Go eru afar óánægðir með þá ákvörðun framleiðandans Niantic að vinda ofan af breytingum sem voru gerðar á leiknum þegar kórónuveirufaraldurinn braust út í fyrra.

Leikurinn gengur út á það að safna Pokémon-fígúrum og berjast við aðra spilara og krefst þess að viðkomandi ferðist um í raunheimum, þar sem fígúrurnar og ýmsir hlutir birtast í leiknum á ákveðnum stöðum.

Þegar kórónuveirufaraldurinn braust út brást leikjafyrirtækið við með því að tvöfalda þá fjarlægð sem spilarar þurftu að vera frá staðnum þar sem viðburðir í leiknum virkjuðust. Ef eitthvað átti að gerast þegar þú komst að Empire State-byggingunni til dæmis, eða styttunni af Ingólfi Arnarsyni, þá þurftir þú ekki lengur að fara jafn nálægt til að það gerðist sem dró úr líkurnar á hópamyndun.

Í sumar hefur fyrirtækið hins vegar verið að draga úr sóttvarnaráðstöfunum í leiknum, mörgum spilurum til óánægju. Þeir hafa meðal annars bent á að ástandið hvað varðar útbreiðslu Covid-19 sé afar mismunandi eftir svæðum og þá segja margir breytingarnar hafa gert leikinn betri; dregið úr kröfum og gert hann ánægjulegri.

Einnig hefur verið bent á að með því að lengja fjarlægðina frá „viðburðastöðunum“ hafi fötluðum verið gert auðveldara að spila leikinn, þar sem lélegt aðgengi víða hafi ekki lengur hamlað þeim jafn mikið.

Um 150 þúsund manns hafa skorað á Niantic að halda í breytingarnar á undirskriftasöfnunarsíðunni Change.org.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×