Erlent

Forseti Afganistan kennir brottför Bandaríkjahers um versnandi ofbeldi

Árni Sæberg skrifar
Ashraf Ghani er forseti Afganistan.
Ashraf Ghani er forseti Afganistan. Wali Sabawoon/Getty

Ashraf Ghani, forseti Afganistan, hefur kennt skyndilegri og snöggri brottför Bandaríkjahers um versnandi ofbeldi í landinu. Her Afganistan á nú í erfiðum átökum við herskáa Talíbana.

Talíbanar réðust á minnst þrjár héraðshöfuðborgir í Afganistan í nótt, Laskhar Gah, Kandahar og Herat. The Guardian greinir frá.

Yfir helgina hefur verið hart barist í landinu og hafa þúsundir almennra borgara neyðst til að yfirgefa heimili sín.

Ghani sagði í ræðu á þinginu í dag að „innfluttu og hröðuðu“ friðarsamningaferli hefði ekki einungis mistekist að koma á friði heldur líka valdið óvissu meðal Afgana.

Í ræðunni sagði Ghani einnig að stjórn hans myndi nú einbeita sér að því að verja héraðshöfuðborgir og stærri þéttbýlisstaði gegn hraðri ásókn Talíbana.

„Talíbanar trúa ekki á varanlegan og réttlátan frið,“ sagði forsetinn.

Átök í landinu hafa færst í aukana frá því í byrjun maí þegar erlendir herir undir forystu Bandaríkjahers drógu sig úr landinu eftir tæplega tuttugu ára langa veru.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×