Erlent

Malt­neska ríkið bar á­byrgð á dauða blaða­mannsins Dap­hne Car­u­ana Galizia

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Daphne Caruana Galizia var myrt í október 2017.
Daphne Caruana Galizia var myrt í október 2017. Getty/Emmanuele Contini

Niðurstöður sjálfstæðrar rannsóknar á dauða maltnesku blaðakonunnar Daphne Caruana Galizia segja að maltnesk yfirvöld þurfi að taka ábyrgð á dauða hennar, eftir að hafa skapað menningu refsileysis í landinu.

Caruana Galizia fórst í sprengingu þegar hún hélt akandi út af heimili sínu þann 16. október 2017. Caruana Galizia sérhæfði sig í fréttamennsku um spillingu og er talið að rannsóknir hennar á spillingu á Möltu hafi leitt til dauða hennar.

Saksóknarar á Möltu telja að kaupsýslumaðurinn Yorgen Fenech, sem er nátengdur háttsettum embættismönnum á Möltu, hafi staðið að baki morðinu. Fenech, sem bíður eftir að réttað verði yfir honum fyrir aðild að morðinu, hefur neitað ásökunum.

Í desember 2017 voru þrír menn handteknir grunaðir um að hafa kveikt í sprengjunni. Einn hefur játað á sig morðið og samkvæmt samkomulagi við dómsyfirvöld afplánar hann nú fimmtán ára fangelsisdóm. Hinir tveir bíða enn réttarhalda. Sá sem játaði mun vera lykilvitni í dómsmálunum.

Rannsóknin, sem komst að niðurstöðunni um ábyrgð maltneska ríkisins, var framkvæmd af einum starfandi dómara og tveimur dómurum sem farnir eru á eftirlaun. Niðurstöðurnar voru þær að hátt settir embættismenn á þeim tíma hafi myndað menningu um refsileysi og hafi morðingjar Caruana Galizia því ekki hræðst eftirmálana.

Ríkið hafi brugðist þegar það viðurkenndi ekki hættuna sem stafaði að lífi Caruana Galizia og hafi mistekist að grípa til aðgerða til að vernda hana.


Tengdar fréttir

Játar að hafa ráðið blaða­konuna Dap­hne Car­u­ana Galizia af dögum

Vince Muscat, einn af þremur mönnum sem ákærðir hafa verið fyrir morðið á maltnesku blaðakonunni Daphne Caruana Galizia árið 2017, hefur viðurkennt að hafa átt aðild að morðinu. Verjandi Muscat hefur upplýst dómara um að Muscat viðurkenni nú sök í öllum ákæruliðum.

Forsætisráðherra Möltu segir af sér í skugga morðmáls

Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, mun láta af embætti á nýju ári. Kallað hefur verið eftir uppsögn hans í kjölfar morðs á maltneskri blaðakonu árið 2017. Einstaklingar með sterkt tengsl inn í ríkisstjórn Muscat eru grunaðir um aðild að morðinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.