Innlent

Rakningarappið er al­­gjör bylting sem hefur ekki enn náð fram að ganga

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
jóhann rakningarapp
vísir/egill

Hið upp­færða rakningarapp er „al­gjör bylting“ að sögn Jóhanns B. Skúla­sonar, yfir­manns smitrakningar­teymis al­manna­varna. Vanda­málið er bara að flestir eiga eftir að upp­færa for­ritið í símunum sínum og ganga um með gamla og óvirka útgáfu í vasanum.

„Það er mjög mikil­vægt að allir sem hafa hlaðið appinu niður í iP­hone fari inn í App Stor­e í símanum og at­hugi hvort þeir eigi eftir að upp­færa það,“ segir Jóhann.

Rakningarappið á App Store. Ef þar stendur „open" hefur það uppfært sig sjálft en ef þar stendur „update" verður þú að gjöra svo vel að uppfæra það hið snarasta!skjáskot

Rakningarappið var kynnt til leiks síðasta sumar og átti þá, líkt og nú, að vera „al­gjör bylting“ og auð­velda smitrakningar­teyminu mjög að rekja ferðir þeirra sem greinast með veiruna og sam­skipti við aðra sem gætu hafa orðið út­settir.

Sú varð þó eigin­lega aldrei raunin: „Nei, það komu upp tækni­legir hnökrar á iP­hone-út­gáfunni sem flestir eru með. Appið var eigin­lega of vítt og sendi skila­boð á allt of marga. Við höfum lítið að gera við upp­lýsingar um alla sem þú labbaðir kannski bara fram hjá smitaður. Það er allt of mikil vinna að fara í gegn um það,“ segir Jóhann.

Getur sent öllum útsettum boð í einu

Nú er búið að breyta þessu, þrengja út­reikningana í appinu sem virkar nú loks sem skildi.

„Þetta er al­gjör „game changer“ þessi nýja út­gáfa,“ segir Jóhann. „Al­gjör bylting fyrir okkar starf í smitrakningar­teyminu.“

Þannig reiknar nýja appið út hverjir voru í það miklu ná­vígi við smitaðan ein­stak­ling nokkra daga áður en hann smitaðist.

„Og ef þú greinist með smit þá geturðu látið appið senda út boð á alla sem eru innan þessa mengis. Og þá vita þeir að þeir voru í ná­vígi við ein­hvern smitaðan og geta dregið sig í hlé og farið var­lega.

Þannig það er tvennt sem þú færð út úr nýju út­gáfunni: Þú getur varað aðra við og þú getur fengið að­varanir. Sem þú vilt auð­vitað fagnandi fá,“ segir Jóhann.

Appið beri uppi smitrakningu í framtíðinni

Annars hefur verið meira en nóg að gera hjá smitrakningar­teyminu frá því að bylgjan sem nú ríður yfir hófst. Jóhann segir þó engan bil­bug að finna á starfs­mönnum teymisins og vonar að sem flestir fari nú í símann og upp­færi appið.

„Í framtíðinni ef þessi faraldur heldur lengur áfram þá vonum við auðvitað að allir verði bara með appið og að við getum reitt okkur á það."

96 greindust með veiruna í gær og 71 daginn þar á undan. Sam­kvæmt nýjustu tölum á co­vid.is eru um sjö hundruð manns í ein­angrun hér á landi og um tvö þúsund í sótt­kví.


Tengdar fréttir

Landlæknir hvetur alla til að uppfæra rakningarappið

Á upplýsingafundi rétt í þessu kynnti Alma Möller landlæknir til sögunnar uppfærslu á smitrakningarappinu, sem felur í sér að nú geta símar „átt samskipti“ við aðra síma í nágrenninu með Bluetooth.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.