Enski boltinn

Virgil van Dijk gæti snúið aftur á fimmtudaginn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Virgil van Dijk meiddist í nágrannaslag Liverpool og Everton í október á seinasta ári.
Virgil van Dijk meiddist í nágrannaslag Liverpool og Everton í október á seinasta ári. John Powell/Liverpool FC via Getty Images

Virgil van Dijk, miðvörður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, gæti snúið aftur á knattspyrnuvöllinn næsta fimmtudag þegar að liðið mætir Herthu Berlín í æfingaleik. Van Dijk hefur verið frá vegna meiðsla í níu mánuði.

Van Dijk sleit krossband síðastliðinn október í leik gegn Everton og hefur ekkert leikið síðan. Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, hafði áður sagt að leikurinn gegn þýska liðinu seinna í vikunni kæmi líklega of snemma og að ólíklegt væri að van Dijk gæti tekið þátt í honum.

Nú virðist þó vera annað hljóð í Klopp, en hollenski varnarmaðurinn hefur staðist öll próf sem læknateymi félagsins hefur lagt fyrir hann að undanförnu. Hann hefur jafnt og þétt aukið álagið við æfingar sínar og er nú að komast á þann stað að hann gæti spilað nokkrar mínútur á fimmtudaginn.

Klopp hefur ekki viljað taka neinar áhættur í bataferli van Dijk, en í samtali við opinbera heimasíðu Liverpool sagði hann að Hollendingurinn liti vel út og að þeir myndu sjá til.

„Ég vona það, en ég er ekki viss. Það er möguleiki að hann geti spilað nokkrar mínútur,“ sagði Klopp.

„Hann lítur vel út á æfingum og kannski getur hann komið inn af bekknum. Við þurfum að ræða þetta betur, en hann lítur út fyrir að vera tilbúinn. Við sjáum til.“

Joe Gomez hefur einnig verið lengi frá vegna meiðsla, en Klopp segir að einnig sé stutt í endurkomu hans.

„Ef Virgil getur spilað 20 mínútur þá ætti Joe að geta það í næsta leik á eftir. Við sjáum til. Þeir líta báðir mjög vel út á æfingum,“ sagði Klopp að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×