Hörður Orri Grettisson er formaður Þjóðhátíðarnefndar.Vísir
Formaður þjóðhátíðarnefndar segir skipuleggjendur nú bíða eftir því að ríkisstjórnin ákveði hvort, og þá hvernig, innanlandstakmarkanir verði settar á vegna kórónuveirunnar. Orðrómur þess efnis að tækniþjónusta hafi verið afbókuð á hátíðinni sé úr lausu lofti gripinn.
„Við erum bara búin að tala saman. Við horfðum á fundinn í dag og erum að bíða eftir hvað ríkisstjórnin gerir,“ segir Hörður Orri Grettisson formaður þjóðhátíðarnefndar í samtali við Vísi.
Ekkert sé til í því að tækniþjónusta hafi verið afbókuð á hátíðinni, sem halda á um verslunarmannhelgina eftir viku, og henni hafi þar með verið aflýst.
„Þetta er bara algjört bull. Einn fjölmiðillinn spurði hvort búið væri að afbóka allt hjá Exton en Exton hefur ekki verið í Herjólfsdal í fimmtán eða tuttugu ár. Þannig að þetta er eitthvað úr lausu lofti gripið,“ segir Hörður.
„Það er ekki búið að afbóka nokkurn einasta mann.“
Skipuleggjendur bíði átekta.
„Það er ekkert búið að breytast í dag nema að Þórólfur hélt fund og svo veit maður ekki meir,“ segir Hörður.
„Ef það verða þannig samkomutakmarkanir settar á í landinu að það þarf að blása þjóðhátíð af þá náttúrulega verður það gert.“
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagðist í dag myndu skila minnisblaði til heilbrigðisráðherra um takmarkanir innanlands. Reiknað er með að ríkisstjórnin fundi um tillögur Þórólfs á morgun.
Ákveðið hefur verið að aflýsa hátíðinni Flúðir um Versló sem fram átti að fara um verslunarmannahelgina í ljósi fjölgunar smita síðustu daga. Ákvörðunin var tekin eftir að greint var frá því að 56 hafi greinst innanlands með Covid-19 í gær.
Formaður Þjóðhátíðarnefndar segist hafa ónotatilfinningu fyrir því að gripið verði til aðgerða til að bregðast við fjölgun kórónuveirusmita í samfélaginu, sem gætu haft áhrif á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Öllum tilmælum yfirvalda verði þó fylgt.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.