Innlent

Með ó­nota­til­finningu fyrir að­gerðum sem gætu sett Þjóð­há­tíð úr skorðum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri ÍBV og formaður Þjóðhátíðarnefndar.
Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri ÍBV og formaður Þjóðhátíðarnefndar. Vísir/Jóhann K.

Formaður Þjóðhátíðarnefndar segist hafa ónotatilfinningu fyrir því að gripið verði til aðgerða til að bregðast við fjölgun kórónuveirusmita í samfélaginu, sem gætu haft áhrif á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Öllum tilmælum yfirvalda verði þó fylgt.

Hörður Orri Grettisson, formaður Þjóðhátíðarnefndar ÍBV, segist ekki vera í stöðu til að geta sér til um hvort gripið verði til aðgerða, og þá hvers eðlis þær verða. Fréttastofa ræddi við hann í dag áður en tölur um smit gærdagsins voru gerðar ljósar. Nefndin hafi áhyggjur af því að aðgerðir muni setja áform um hátíðina úr skorðum.

„Við höfum ákveðna ónotatilfinningu fyrir því að það verði gripið til aðgerða,“ segir Hörður í samtali við fréttastofu.

Í gær greindust 56 manns með kórónuveiruna hér á landi, meirihlutinn bólusettur. Í samtali við fréttastofu sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að ekki væri á dagskrá hjá sér í dag að skila minnisblaði um aðgerðir til heilbrigðisráðherra. Það væri þó alltaf í skoðun og grípa þyrfti til einhvers konar aðgerða.

Innan við tvær vikur eru í Þjóðhátíð og segir Hörður að best væri að fá botn í málið sem fyrst.

„Undirbúningur er allur á fullu og skipulag hátíðarinnar er á lokametrunum. Því fyrr sem það koma einhver tilmæli, því betra.“

Í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum er alla jafna margt um mannin um Verslunarmannahelgina.Vísir/Sigurjón

Fari svo að Þjóðhátíð fari ekki fram í ár munu margir tilvonandi gestir hátíðarinnar sitja uppi með ónothæfa miða. Hörður segir að leyst verði úr því ef að því kemur.

„Það er bara eitthvað sem við höfum ekki skoðað. Við vorum í svipuðu ferli í fyrra þegar búið var að selja töluvert magn af miðum. Þá gat fólk annað hvort fengið endurgreitt eða flutt miðann yfir á hátíðina í ár. Ég reikna með að það yrði eitthvað sams konar fyrirkomulag,“ segir Hörður.

Hann segir að hvað sem verður muni skipuleggjendur fylgja tilmælum Almannavarna í einu og öllu. Fari hátíðin fram verði persónulegar sóttvarnir ítrekaðar og allt gert svo hátíðin geti farið sómasamlega fram. Að öllu óbreyttu er það stefnan.

„Við stefnum að því að halda Þjóðhátíð og í dag eru engar samkomutakmarkanir í landinu. Á meðan svo er, þá fer Þjóðhátíð fram.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.