Innlent

„Löngunin til að vera á Ís­landi sterkari en svo að ég láti enn eitt prófið hindra það“

Tryggvi Páll Tryggvason og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Bandarískir ferðamenn streyma til landsins.
Bandarískir ferðamenn streyma til landsins. Mynd/Skjáskot

Undirbúningur að hertum aðgerðum á landamærunum sem taka gildi á mánudaginn stendur nú yfir á Keflavíkurflugvelli. Ferðamenn sem komu hingað til lands í dag telja ólíklegt að krafan um neikvætt próf við Covid-19 hefði komið í veg fyrir ferðalag þeirra hingað, hefðu hinar nýju reglur verið í gildi í dag.

Næstkomandi mánudag taka hertar tillögur gildi á landamærunum þar sem að allir sem koma til landsins verði að sýna fram á neikvætt próf við Covid-19, einnig þeir sem eru fullbólusettir. Sýna þarf fram á niðurstöðu úr PCR-próf eða hraðprófi. 

Yfirvöld á Keflavíkurflugvelli vinna nú á því að koma upplýsingum um reglurnar til þeirra sem ætla sér að koma hingað til lands á næstunni, svo koma megi í veg fyrir öngþveiti á mánudaginn þegar reglurnar taka gildi, líkt og Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli orðaði það í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Að upplifa drauminn

Fjöldi farþega koma hingað til lands í dag og Kristín Ólafsdóttir fréttamaður tók nokkra þeirra tali fyrir utan Keflavíkurflugvöll og spurði þá hvort að hinar nýju reglur sem taka gildi á mánudag hefðu haft letjandi áhrif á þá ákvörðun að ferðast til Íslands. 

„Líklega ekki,“ sagði Bandaríkjamaðurinn Kyle Menter. „Satt að segja finnst mér að löngunin til að vera á Íslandi sterkari en svo að ég láti enn eitt prófið hindra það þótt ég sé bólusettur.“

„Ef hraðpróf dugar og ekki er þörf á að fara í PCR-próf myndum við líklega samt gera það,“ sagði ferðafélagi hans Michelle Li.

Samlandi þeirra Chris Casey sem einnig var að koma hingað til lands frá Bandaríkjunum tók í sama streng.

„Líklega ekki. Ég hef þegar gengist undir þrjú próf og þau hafa öll verið neikvæð. Ég hef verið bólusettur. Þetta hefði ekki haft áhrif á ákvörðun mína. Mig hefur dreymt um að heimsækja Ísland í mörg ár. Ég upplifi nú draum minn,“ sagði Casey.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.