Fótbolti

Segja að Valur spili varnar­sinnað 4-4-2 leik­kerfi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik Vals og Dinamo Zagreb í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Valur féll þar úr leik og leikur á fimmtudag gegn Bodø/Glimt í forkeppni Sambandsdeild Evrópu.
Úr leik Vals og Dinamo Zagreb í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Valur féll þar úr leik og leikur á fimmtudag gegn Bodø/Glimt í forkeppni Sambandsdeild Evrópu. Vísir/Bára Dröfn

Noregsmeistarar Bodø/Glimt mæta Íslandsmeisturum Vals í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu á fimmtudaginn kemur. 

Hitað var upp fyrir leikinn á vefsíðu liðsins þar sem farið er yfir að íslenska deildin sé spiluð yfir sumartímann, varnarsinnað upplegg Vals og Hannes Þór Halldórsson.

Íslenski landsliðsmaðurinn Alfons Sampsted og félagar í Bodø/Glimt duttu út úr Meistaradeild Evrópu gegn Legia Varsjá. Lauk einvíginu með 5-2 sigri Legia og því er Bodø/Glimt komið í Sambandsdeildina Evrópu þar sem liðið mætir Val.

Á vefsíðu Bodø/Glimt er tekið fram að liðið fari úr 30 stiga hita í Varsjá yfir í grámygluna í Reykjavík. Þar segir að íslenska deildin sé í fullu fjöri þessa dagana og að Íslandsmeistarar Vals tróni á toppi deildarinnar nú þegar 13 umferðir eru búnar af Pepsi Max deildinni.

Hannes Þór Halldórsson er nefndur á nafn en hann var þar á láni árið 2016. Alls lék hann 14 leiki fyrir félagið. Á vefnum er minnst á óvænt 2-1 tap Vals gegn ÍA um liðna helgi og tekið sérstaklega fram að Skagamenn séu í „júmbósætinu“ eða neðsta sæti deildarinnar.

Mjög íslenskt lið

„Valur, líkt og mörg önnur íslensk fótboltalið, er orkumikið lið sem leggur hart að sér. Liðið stillir venjulega upp í varnarsinnað 4-4-2 leikkerfi og mun eflaust leyfa gestunum frá Bodø að vera meira með boltann,“ segir um Valsliðið.

Hvort Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, komi á óvart og stilli upp í 4-4-2 á eftir að koma í ljós en reikna má með að liðið verði í hefðbundnu 4-2-3-1 leikkerfi í leiknum sem fram fer á fimmtudag.

Leikur Vals og Bodø/Glimt í Sambandsdeild Evrópu er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport. Útsending hefst 18.45 og leikurinn sjálfur klukkan 19.00.

Alfons Sampsted leikur með Noregsmeisturum Bodø/Glimt sem og íslenska landsliðinu. Boris Streubel/Getty Images



Fleiri fréttir

Sjá meira


×