Fótbolti

Segir Vara­ne vanan að spila aðeins átta erfiða deildar­leiki á ári

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Miðvörðurinn knái í leik með Frakklandi á EM í sumar.
Miðvörðurinn knái í leik með Frakklandi á EM í sumar. Alex Caparros/Getty Images

Franski miðvörðurinn Raphaël Varane er áfram orðaður við Manchester United en ekki eru allir á allt vissir hvort leikmaðurinn henti liðinu eða passi einfaldlega inn í ensku úrvalsdeildina.

Danny Mills – sem lék á sínum tíma 19 A-landsleiki fyrir England ásamt því að spila fyrir Leeds United og Manchester City – var í viðtali á útvarpsstöðinni talkSPORT þar sem hann sagði sína skoðun.

Mills telur að Varane sé ekki endilega rétti maðurinn til að lagfæra varnarleik Man United. Hann hafi í raun aðeins spilað átta erfiða deildarleiki á ári með Real Madrid sem og nokkra í Meistaradeild Evrópu með Sergio Ramos sér við hlið.

Þá veltir Mills fyrir sér hvort Varane ráði við hraðann og kraftinn í ensku deildinni. Nefnir hann til að mynda að Timo Werner og Kai Havertz, leikmenn Chelsea, hafi brugðið hversu erfiðir leikirnir í deildinni væru eftir komuna frá Þýskalandi.

Hlusta má á ræðu Mills hér að neðan. Hún er á ensku.

Varane gekk í raðir Real Madrid árið 2011 og hefur leikið með liðinu allar götur síðan. Hefur hann unnið spænsku úrvalsdeildina þrívegis, Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum, Ofurbikar Evrópu þrívegis, HM félagsliða fjórum sinnum og spænska konungsbikarinn einu sinni.

Þá varð hann heimsmeistari með Frökkum árið 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×