Fótbolti

Juventus og Arsenal berjast um eina af stjörnum Ítalíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Manuel Locatelli er eftirsóttur eftir að standa sig vel á EM.
Manuel Locatelli er eftirsóttur eftir að standa sig vel á EM. Alberto Lingria/Getty Images

Ítalski miðjumaðurinn Manuel Locatelli virðist vera á leið til Juventus ef marka má frétt The Guardian. Arsenal hefur einnig mikinn áhuga á leikmanninum en Locatelli vill spila í Meistaradeild Evrópu og því kemur Lundúnaliðið ekki til greina sem stendur.

Hinn 23 ára gamli Locatelli byrjaði Evrópumótið í sumar vel og stóð sig almennt með prýði á mótinu en Ítalía stóð uppi sem sigurvegari eins og frægt er orðið. Locatelli skoraði tvö glæsileg mörk á mótinu, bæði í 3-0 sigri gegn Sviss. Alls kom hann við sögu í 5 af 7 leikjum liðsins.

Locatelli spilar með Sassuolo á Ítalíu en er uppalinn hjá AC Milan. Samningur hans rennur út eftir tvö ár og því liggur félaginu ekkert á að selja. Sassuolo er þó tilbúið að leyfa leikmanninum að fara ef tilboð upp á 40 milljónir evra berst.

Juventus er ekki tilbúið að eyða svo miklu eins og staðan er í dag. Vill það fá miðjumanninn á láni út næsta tímabil með ákvæði um að kaupa hann á 30 milljónir evra sumarið 2022. 

Arsenal ku vera tilbúið að borga uppsett verð en leikmaðurinn hallast að Juventus þar sem hann vill spila í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Lærisveinar Mikel Arteta enduðu í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og leikur því hvorki í Meistaradeildinni né annarri Evrópukeppni í vetur.

Það verður forvitnilegt að sjá hvar Locatelli mun spila á næstu leiktíð en hann stóð sig einkar vel á EM í sumar og skoraði tvö glæsileg mörk. Mörkin má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×