Erlent

Banna hraða tón­list til að draga úr út­breiðslu veirunnar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Líkamsræktarstöðvar í Seúl mega ekki spila of hraða tónlist.
Líkamsræktarstöðvar í Seúl mega ekki spila of hraða tónlist. Chung Sung-Jun/Getty

Líkamsræktarstöðvum í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu, og nágrenni hefur verið bannað að spila hraða tónlist í húsakynnum sínum, til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.

Heilbrigðisyfirvöld hafa þannig lagt blátt bann við því að spiluð verði lög sem eru hraðari en 120 slög á mínútu, samkvæmt breska ríkisútvarpinu. Auk þess verður hámarkshraði hlaupabretta sex kílómetrar á klukkustund.

Þetta segja yfirvöld vera til þess fallið að koma í veg fyrir að fólk andi of hratt í ræktinni eða að svitadropar skvettist frá manni til manns, með mögulegri sýkingarhættu sem kynni að fylgja því.

Eigendur stöðvanna efins

Ný bylgja faraldursins ríður nú yfir Suður-Kóreu, sem hefur heilt yfir staðið nokkuð vel frá upphafi faraldursins á fyrri hluta síðasta árs. Yfir 51 milljón manna býr í landinu en rétt rúmlega 170 þúsund manns hafa greinst með veiruna þar í landi, og 2.046 látist af völdum Covid-19.

Þó hafa aldrei jafn margir greinst með veiruna þar í landi og í gær, eða 1.150. Forsætisráðherrann þar í landi, Kim Boo-kyum, sagði á föstudag að kórónuveirukrísan hefði náð algjöru hámarki í landinu.

Auk ofangreindra ráðstafana hefur líkamsræktarstöðvum verið gert að loka dyrum sínum ekki síðar en klukkan tíu á kvöldin. Þá má fólk ekki verja meira en tveimur klukkustundum inni í íþrótta- og líkamsræktarmannvirkjum á degi hverjum, auk þess sem ekki er leyfilegt að fara í sturtu á slíkum stöðum.

BBC hefur eftir einum eiganda líkamsræktarstöðvar í Seúl að hann sé efins um að tónlistarval hafi mikil áhrif á útbreiðslu veirunnar. Þá segir hann erfitt að ætla að stjórna því hvað fólk hlusti á með heyrnartólum sínum, sem eru staðalbúnaður í huga margra þegar haldið er í ræktina. Stjórnvöld í landinu sega ráðstafanirnar hins vegar koma í veg fyrir það að loka þurfi líkamsræktarstöðvum alfarið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.