Fótbolti

Lands­liðs­maður Eng­lands tekur innan­ríkis­ráð­herrann til bæna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tyrone Mings sendi Priti Patel tóninn á Twitter.
Tyrone Mings sendi Priti Patel tóninn á Twitter. vísir/getty

Enski landsliðsmaðurinn Tyrone Mings segir holan hljóm í gagnrýni Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, á kynþáttaníð sem samherjar hans, Jadon Sancho, Marcus Rashford og Bukayo Saka, urðu fyrir eftir úrslitaleik EM.

Þremenningarnir nýttu ekki sínar spyrnur í vítakeppninni gegn Ítalíu og fengu í kjölfarið yfir sig holskeflu rasískra athugasemda á samfélagsmiðlum.

Fjölmargir hafa fordæmt kynþáttaníðið sem ensku landsliðsmennirnir urðu fyrir, þar á meðal Patel.

Mings fannst ekki mikið til orða Patels koma og sagði þau ekki í samræmi við fyrri ummæli hennar. Í síðasta mánuði kallaði hún það þegar leikmenn krjúpa á hné fyrir leiki til stuðnings baráttunnar gegn kynþáttafordómum sýndarstjórnmál og sagðist ekki styðja það. Jafnframt vildi hún ekki gagnrýna þá sem púuðu á leikmenn sem krupu fyrir leiki.

„Þú getur ekki skarað eldinn fyrir mótið með því að stimpla skilaboð okkar gegn kynþáttafordómum sem sýndarstjórnmál og þykjast svo bjóða við því þegar það sem við berjumst gegn kemur upp,“ skrifaði Mings á Twitter.

Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, fordæmdi einnig hatursorðræðuna eftir úrslitaleikinn. Gary Neville, fyrrverandi landsliðsmaður Englands og núverandi álitsgjafi, sagði hins vegar að Johnson hefði varla efni á því. Johnson væri sjálfur ábyrgur að hluta vegna ummæla sinna um að það væri í lagi í púa á leikmenn sem mótmæltu rasisma.

Flokkssystir þeirra Pratis og Johnsons í Íhaldsflokknum, Natalie Elphicke, baðst í gær afsökunar á því að hafa sagt að Rashford ætti að eyða meiri tíma í að æfa vítaspyrnur en að blanda sér í pólitík.

Rashford baðst afsökunar á að hafa klúðrað vítinu en hann myndi hins vegar aldrei biðjast afsökunar á því hver hann væri og hvaðan hann kæmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×