Íslenski boltinn

Kjartan: Við þurfum að trúa

Dagur Lárusson skrifar
Kjartan Stefánsson er þjálfari Fylkis.
Kjartan Stefánsson er þjálfari Fylkis.

Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, var að vonum ósáttur eftir 4-0 tap síns liðs gegn Breiðablik í Pepsi Max deild kvenna í kvöld.

Kjartan viðurkenndi að Blikar voru betri en hann var ekki sáttur með að hafa tapað svona stórt.

„Fúlt að tapa að tapa svona stórt, en þær voru klárlega betri í dag. Þær voru fljótari og ákveðnari og áttu sigurinn skilið,“ byrjaði Kjartan á að segja.

Fylkisstúlkur byrjuðu leikinn nokkuð vel og voru inn í leiknum fyrsta hálftímann en hornspyrnumark Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttur virtist hafa verið vendipunkturinn.

„Það var margt alveg ágætt í okkar leik og svona ákveðnir þættir sem voru eflaust betri í þessum leik heldur en í öðrum leikjum. Það er eitthvað sem ég og mitt þjálfarateymi sjáum, en kannski ekki þeir sem horfa bara á leikinn. Við vorum að gera fína hluti en síðan kom hornspyrnumarkið frá Áslaugu og það var smá rothögg.“

Þetta var annar tapleikur Fylkis í röð, en þar á undan var liðið taplaust í þremur leikjum. Kjartan telur að lykilinn að því að komast aftur á gott skrið sé einfaldlega að halda í trúna.

„Við verðum bara að halda áfram að trúa og sækja alla þá gleði sem við finnum og hafa gaman að þessu. Ef við gerum það þá kannski fer þetta að falla með okkur en við þurfum vissulega heppni líka,“ endaði Kjartan á að segja.


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×