Fótbolti

Forseti UEFA segir það ósanngjarnt að spila EM í mörgum mismunandi löndum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aleksander Ceferin sér ekki fyrir sér að EM verði haldið aftur með sama sniði og í ár.
Aleksander Ceferin sér ekki fyrir sér að EM verði haldið aftur með sama sniði og í ár. Harold Cunningham - UEFA/UEFA via Getty Images

Forseti UEFA, Aleksander Ceferin, segir það ósanngjarnt gagnvart stuðningsmönnum og liðunum sem taka þátt á EM hversu langt sumir þurfi að ferðast á milli leikja. Hann segir að hann muni ekki láta þetta koma fyrir aftur.

Á morgun mætast Englendingar og Ítalir í úrslitum Evrópumótsins sem hefur farið fram í ellefu mismunandi löndum.

Mikill munur er á því hversu langt liðin og stuðningsmenn þeirra hafa þurft að ferðast á milli leikja. Skotar hafa sloppið best og aðeins þurft að ferðast 1.108km, á meðan að Svisslendingar hafa þurft að ferðast mest allra, eða 15.485km. Það er tæplega 14 sinnum meira en Skotarnir.

„Ég myndi ekki styðja þetta aftur,“ sagði Ceferin í samtali við BBC. „Það er ekki réttlátt að sum lið þurfi að ferðat yfir 10.000km á meðan að önnur þurfa bara að ferðast 1.000km.“

„Þetta er ekki sanngjarnt fyrir stuðningsmenn, sem þurftu einn daginn að vera í Róm og svo Bakú nokkrum dögum seinna.“

„Við þurftum að ferðast mikið. Til landa með mismunandi lög, mismunandi gjaldmiðil, lönd í Evrópusambandinu og lönd utan þess. Þetta hefur ekki verið auðvelt.“

„Það var ákveðið að hafa þetta með þessu sniði áður en ég tók við og ég virði það. Þetta var áhugaverð hugmynd, en hún er erfið í framkvæmt og ég held að við munum ekki gera þetta aftur,“ sagði Ceferin að lokum.

Leikir Evrópumótsins hafa verið spilaðir í London, Glasgow, Amsterdam, Kaupmannahöfn, Sankti Pétursborg, Sevilla, Munchen, Bakú, Róm, Búkarest og Búdapest. Bæði Englendingar og Ítalir spiluðu alla leiki sína í riðlinum í heimalandi sínu, en Englendingar hafa einungis leikið einn leik utan Englands. Það var leikur liðsins gegn Úkraínu í átta liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×