Erlent

Minnst 52 látin eftir eldsvoða í Bangladess

Árni Sæberg skrifar
Björgunarfólk hefur fundið 52 lík í verksmiðjunni.
Björgunarfólk hefur fundið 52 lík í verksmiðjunni. K M Asad/Getty

Eldur kviknaði í matvælaverksmiðju í Bangladess í gær. Talið er að hluti fórnarlambanna hafi verið læstur inni í verksmiðjunni.

Fimm hæða verksmiðjubygging Hashem Foods stóð alelda í Rupgjani í gærkvöldi. Mikinn reyk lagði yfir borgina sem er steinsnar frá Dhaka, höfuðborgar Bangladess.

Upphaflega gaf lögreglan í Rupgjani út að aðeins þrjú væru látnir. Frá því slökkt var í eldinum hafa 52 lík fundist í byggingunni. Enn á eftir að leita á efstu tveimur hæðum verksmiðjunnar og því er nokkuð ljóst að tala látinna muni fara hækkandi.

Debasish Bardan, aðstoðarslökkviliðsstjóri borgarinnar, segir að aðalinngangi hússins hafi verið læst innanfrá og að mörg þeirra sem létust hafi verið læst inni.

Samkvæmt bangladeskum fjölmiðlum stukku margir starfsmenn út um glugga á logandi verksmiðjunni. Minnst 26 eru særð.

Kazi Abdur Rahman, yfirmaður hjá Hashem Foods, segir, í símtali við AP fréttaveituna, fyrirtækið ávallt fylgja alþjóðlegum öryggisstöðlum en að hann sé ekki viss um hvort dyrnar hafi verið læstar eða ekki. „Við erum virðulegt fyrirtæki; við fylgjum reglum,“ sagði hann. „Það sem gerðist hér í dag er sorglegt. Okkur þykir fyrir því,“ bætti hann við.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×