Fótbolti

Davíð Þór segir FH vilja halda Þóri Jóhanni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þórir Jóhann Helgason, leikmaður FH - sem stendur.
Þórir Jóhann Helgason, leikmaður FH - sem stendur. Vísir/Bára Dröfn

Miðjumaðurinn öflugi Þórir Jóhann Helgason verður samningslaus í haust og hefur verið umræða á kreiki um að hann muni yfirgefa lið sitt FH er samningurinn rennur út. Davíð Þór Viðarsson, þjálfari FH var spurður út í samningsmál Þóris að loknum 1-0 sigri FH á Sligo Rovers í Sambandsdeild Evrópu í gærkvöld.

Davíð Þór var í viðtali hjá Fótbolti.net eftir leik. Eftir að hafa rætt leikinn var hann spurður út í framtíð Þóris Jóhanns í Kaplakrika. Þórir Jóhann sjálfur var einnig í viðtali hjá Fótbolta.net eftir leik en hafði lítinn áhuga á að ræða framtíð sína.

„Ég vil ekkert ræða það,“ 

sagði leikmaðurinn um málið.

Þessi tvítugi leikmaður lék sinn fyrsta A-landsleik á dögunum er hann var í byrjunarliði Íslands í 2-1 tapi gegn Mexíkó í vináttulandsleik. Þá á hann að baki sjö yngri landsleiki. Það er ljóst að það væri mikið áfall fyrir FH að missa hann í annað lið hér á landi.

„Það er bara í ferli. Þórir Jóhann er einn allra besti leikmaðurinn okkar og leikmaður sem við viljum mjög mikið halda. Vonandi klárum við það mál á næstu dögum. Það er engin spurning að við höfum mikinn áhuga á að halda honum innan okkar raða,“ sagði Davíð Þór en miðjumaðurinn efnilegi hefur verið orðaður við Breiðablik.

Davíð Þór Viðarsson, annar af þjálfurum FH.Vísir/Bára Dröfn

Þórir Jóhann lék 82 mínútur er FH vann mikilvægan 1-0 sigur á írska liðinu Sligo Rovers í Sambandsdeild Evrópu í gærkvöld. Síðari leikur liðanna fer fram í næstu viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×