Erlent

Evrópuþingið hvetur diplómata til að sniðganga vetrarólympíuleikana í Pekíng

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vetrarólympíuleikarnir fara fram 4. til 20. febrúar 2022.
Vetrarólympíuleikarnir fara fram 4. til 20. febrúar 2022. epa/Wu Hong

Evrópuþingið hefur samþykkt ályktun þar sem diplómatar eru hvattir til að sniðganga vetrarólympíuleikana í Pekíng vegna mannréttindabrota kínverskra stjórnvalda.

Ályktunin er ekki bindandi en í henni eru aðildarríki Evrópusambandsins hvött til að grípa til frekari refsiaðgerða, til að veita blaðamönnum frá Hong Kong dvalarleyfi og styðja aðra íbúa Hong Kong til að flytjast til Evrópu.

Tillagan naut stuðnings allra stærstu flokkanna á þinginu og samþykkt með 578 atkvæðum gegn 29. Sjötíu og þrír sátu hjá.

Í ályktuninni eru öll stjórnvöld og diplómatar hvött til að hafna boðum á vetrarólympíuleikana 2022 nema stjórnvöld í Kína sýni fram á bætt ástand mannréttindamála í Hong Kong, í Xinjiang, Tíbet, Mongólíu og víðar.

Stjórnvöld í Pekíng hafa hafnað öllum ásökunum um mannréttindabrot og sakað önnur ríki um afskipti af innanríkismálum landsins undir fölsku yfirskini.

Ályktunin hefur verið harðlega gagnrýndi af kínverska ríkismiðlinum Global Times, þar sem segir að um sé að ræða samansafn vestrænna öfgahugmyndafræða. And-kínversk öfl freisti þess að hrópa sem hæst og hafa sem mest áhrif en kínversk stjórnvöld muni ekki grafa undan kínverskum hagsmunum til að tryggja evrópskan stuðning við leikana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×