Erlent

Tókst að stafsetja „querimonious“ og „solidungulate“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Zaila stóð uppi sem sigurvegari eftir að hafa stafsett orðið „murraya“.
Zaila stóð uppi sem sigurvegari eftir að hafa stafsett orðið „murraya“. Scripps National Spelling Bee

Hin 14 ára Zaila Avant-garde er fyrsta svarta bandaríska ungmennið sem vinnur hina víðfrægu Scripps-stafsetningarkeppni. Avant-garde, sem er frá New Orleans í Louisiana, sigraði með því að stafa orðið „murraya“, sem er trjátegund sem vex í hitabeltinu.

Flestir þátttakenda stafsetningarkeppninnar eru bandarískir en keppnin er einnig opin keppendum frá öðrum ríkjum sem eru meistarar í heimalandinu. Keppendur mega ekki vera eldri en 14 ára.

Avant-garde er dugleg að æfa sig og fer að jafnaði með 13 þúsund orð á sjö tímum, daglega. Hún er hins vegar einnig körfuknattleikssnillingur og á þrjú heimsmet fyrir að drippla mörgum boltum samtímis. Þá hefur hún birst í auglýsingu með atvinnumanninum Stephen Curry.

Þegar Avant-garde sigraði keppnina með því að slá út hina 12 ára Chaitra Thummala frá Texas, hafði hún þegar stafsett orðin „querimonious“, sem þýðir þrætugjarn, og „solidungulate“, sem er notað um dýr sem hafa einn klauflausan hóf á hverjum fæti.

Avant-garde er önnur svarta stúlkan til að sigra keppnina en árið 1998 var hin 12 ára Jody-Anne Maxwell frá Jamaíku krýnd sigurvegari.

Keppnin var ekki haldin í fyrra sökum kórónuveirufaraldursins en árið 2019 voru átta börn lýst sigurvegarar, þegar dómarar urðu uppiskroppa með orð til að fella keppendur úr keppni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×