Erlent

Níu látnir eftir alvarlegt flugslys í Svíþjóð

Eiður Þór Árnason skrifar
Flugvöllurinn í Örebro. Ljósmyndin tengist ekki efni fréttarinnar með beinum hætti. 
Flugvöllurinn í Örebro. Ljósmyndin tengist ekki efni fréttarinnar með beinum hætti.  wikimediacommons/Lars Wahlstrom

Níu eru látnir eftir að lítil flugvél hrapaði á flugvellinum í Örebrö í Svíþjóð um klukkan fimm að íslenskum tíma. Átta farþegar voru um borð í vélinni auk flugmanns en hún hrapaði skömmu eftir flugtak og lenti rétt fyrir utan flugbrautina.

Þetta hefur Aftonbladet eftir sænsku lögreglunni og öðrum viðbragðsaðilum. Eldur kviknaði í vélinni eftir að hún hrapaði en um er að ræða litla skrúfuvél af gerðinni DHC-2 Turbo Beaver. Búið er að slökkva eldinn og hefur minnst einn verið fluttur á spítala með sjúkrabíl.

Tilkynning barst um slysið klukkan 19:22 að staðartíma en farþegarnir um borð voru á leiðinni í fallhífastökk. Mikill viðbúnaður er á svæðinu og var allt tiltækt lið kallað á staðinn að sögn talsmanns lögreglunnar.

Ekki liggur fyrir hvað orsakaði slysið. Sænski forsætisráðherrann Stefan Löfven vottaði fólkinu um borð og fjölskyldum þeirra samúð sína á Twitter fyrr í kvöld.

Fréttin hefur verið uppfærð með tölu látinna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×