Erlent

Fyrr­verandi varakanslari fyrir dóm í tengslum við „I­bizagate“

Kjartan Kjartansson skrifar
Heinz-Christian Strache (f.m.) hrökklaðist úr Frelsisflokknum eftir Ibiza-hneykslið en sneri aftur í stjórnmálin með nýjum flokki fyrrverandi frelsisflokksmanna.
Heinz-Christian Strache (f.m.) hrökklaðist úr Frelsisflokknum eftir Ibiza-hneykslið en sneri aftur í stjórnmálin með nýjum flokki fyrrverandi frelsisflokksmanna. Vísir/EPA

Réttarhöld yfir Heinz-Christian Strache, fyrrverandi varakanslara Austurríkis og leiðtoga Frelsisflokksins, hófust í Vín í morgun. Hann er sakaður um spillingu, meðal annars í hneykslismáli sem felldi ríkisstjórn landsins árið 2019 og kennt er við Ibiza.

Strache sagði af sér sem varakanslari eftir að leynileg myndbandsupptaka birtist af honum ölvuðum í samræðum við rússneska konu á spænsku eyjunni Ibiza. Konan þóttist vera frænka rússnesks ólígarka og gaf í skyn að hún hefði hug á að kaupa stærsta götublað Austurríkis. Bauð Strache henni þá ábatasama samninga við ríkið í skiptum fyrir stuðning blaðsins við flokkinn.

Upptakan, sem var gerð skömmu fyrir þingkosningar árið 2017, leiddi til spillingarrannsókna og var lagt hald á síma Strache og fleiri stjórnmálamanna. Hneykslismálið hefur verið nefnt „Ibizagate“ í fjölmiðlum.

Í málinu sem var tekið fyrir í dag er Strache ákærður fyrir að reyna að breyta lögum í þágu einkarekins sjúkrahúss í skiptum fyrir framlög í kosningasjóði Frelsisflokksins. Hann er sakaður um að hafa þegið 10.000 evrur, jafnvirði tæprar einnar og hálfrar milljónar íslenskra króna.

AP-fréttastofan segir að Strache gæti átt yfir höfði sér sex mánaða til fimm ára fangelsisrefsingu verði hann fundinn sekur. Lögmenn hans segja að hvorki hann né þeir ætli að tjá sig opinberlega á meðan réttarhöldin standa yfir.


Tengdar fréttir

Kurz og Græningjar náðu saman

Austurríski þjóðarflokkurinn (ÖVP) og Græningjar þar í landi hafa náð saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir nokkurra mánaða viðræður.

Varakanslari Austurríkis segir af sér vegna ásakana um spillingu

Heinz-Christian Strache, vara-kanslari Austurríkis hefur sagt af sér embætti varakanslara og embætti leiðtoga eftir að myndband komst í dreifingu þar sem hann virðist bjóðast til þess að semja við rússneska konu gegn því að hún komi boðskap frelsisflokksins á framfæri í austurrískum fjölmiðlinum Kronen-Zeitung.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×