Innlent

Gosið farið að taka aftur við sér

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hér má sjá rauðleita birtu frá gígnum sem bendir til að hraunið sé farið að vella að nýju í gígnum. Myndin er tekin úr vefmyndavél Vísis rétt eftir klukkan 21.
Hér má sjá rauðleita birtu frá gígnum sem bendir til að hraunið sé farið að vella að nýju í gígnum. Myndin er tekin úr vefmyndavél Vísis rétt eftir klukkan 21. Vísir

Farið er að sjást aftur í hraun gægjast upp úr gígnum í Geldingadölum en gosóróinn minnkaði talsvert í dag og lítið hefur sést til jarðelds það sem af er degi.

„Óróinn fór að aukast aftur með kvöldinu og er farinn að ná sér eins og hann var í morgun. Það er farið að sjást svolítið í rauða glóð og mikið gas stígur þarna upp. Við erum búin að sjá smá spýjur þarna upp úr gígnum, þannig að það er farið að aukast aðeins aftur,“ segir Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við fréttastofu.

Gosórói féll líka niður á mánudagskvöld og aðfaranótt þriðjudags og lá órói þá niðri í nokkrar klukkustundir áður en eldstöðin tók við sér og sjá mátti öflugar hraungusur flæða yfir gígbarmana í fyrrakvöld.

Hægt er að fylgjast með gosinu, og sjá hraunspýjurnar, í vefmyndavél Vísis á Fagradalsfjalli hér að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×