Innlent

Ekki nóg að nágranni sé leiðinlegur

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Ung kona þarf ekki að greiða lokagreiðslu af íbúð sem hún keypti þar sem hún var metin gölluð í Hæstarétti vegna nágrannaerja. Lögmaður hjá Húseigendafélaginu segir dóminn fordæmisgefandi og á von á að fjölmargir hafi samband vegna samskonar mála.

Í málinu neitaði kaupandi fasteignar að greiða eftirstöðvar kaupverðs þar sem hún taldi íbúðina haldna galla vegna nágrannaerja í húsinu en þetta er í fyrsta sinn sem Hæstiréttur dæmir fasteign gallaða vegna nágranna. 

Segir dóminn stórmerkilegan

Nágranninn er sagður hafa hegðað sér óvenjulega, svo sem með því að færa til blómapotta í sameign og hrópa ókvæðisorðum að öðrum íbúum hússins. Þá hafði lögregla þurft að hafa afskipti af nágrannanum þegar hann veittist að seljanda og sló hann.

„Þetta er stórmerkilegur dómur vegna þess að hann hefur enga hliðstæðu hér á landi. Þarna er verið að meta eistaklinginn til fjárs en ekki eiginleika eignarinnar. Mygla, raki eða eitthvað því um líkt,“ sagði Tinna Andrésdóttir, lögfræðingur hjá Húseigendafélaginu.

Upplýsa skal um verulegt ónæði

Dómurinn fær eflaust marga til að hugsa hvar mörkin liggja? 

„Það er kannski ekki nóg að hann sé þannig leiðinlegur að hann heilsi þér ekki á morgnanna en ef hann er þannig að hann er farinn að valda þér verulegu ónæði og það er óeðlilegt og komið út fyrir eðlileg mörk þá á að upplýsa um það,“ sagði Tinna.

Á von á fleiri sambærilegum málum

Hún segir dóminn undirstrika mikilvægi upplýsingaskyldu seljanda í fasteignakaupum.

„Seljandi á að upplýsa um allt sem skiptir máli við kaupin og myndi skipta kaupanda máli og það er svo kaupanda að meta það hvort þessar upplýsingar skipti hann máli,“ sagði Tinna.

Seljandinn hafði tilkynnt að nágranninn hafi átt við geðræn vandamál að stríða en leyndi öðrum upplýsingum um samskipti þeirra.

„Og leynir þeim upplýsingum að nágranninn hafi hlotið dóm fyrir líkamsárás gegn seljanda og eignaspjöll,“ sagði Tinna sem segir dóminn hafa fordæmisgildi.

„Og við eigum von á því að fá fullt af svona málum inn á borð til okkar.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.