Innlent

Segir Brynjar í bullinu og trúir ekki að hann sé við­kvæmt blóm

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Fjölnir Sæmundsson (hægri) skilur ekkert í þingmanninum Brynjari Níelssyni (vinstri).
Fjölnir Sæmundsson (hægri) skilur ekkert í þingmanninum Brynjari Níelssyni (vinstri). vísir/vilhelm

„Fyrstu við­brögð mín voru bara þau að það væri kannski kominn tími til að Brynjar Níels­son kynnti sér málin að­eins áður en hann færi að skrifa greinar um þau,“ sagði Fjölnir Sæ­munds­son, for­maður Lands­sam­bands lög­reglu­manna, þegar hann var inntur eftir við­brögðum við grein Brynjars Níels­sonar, þing­manns Sjálf­stæðis­flokksins, sem birtist á Vísi í dag.

Þar fjallar Brynjar um störf lög­reglu­mannanna við Ás­mundar­sal í desember, þar sem Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála­ráð­herra, var á meðal gesta á sýningu þar sem sótt­varna­lög voru brotin.

Í greininni heldur Brynjar því fram að traust til lög­reglu hafi rýrnað við málið, segir for­dóma lög­reglu­mannanna í garð Sjálf­stæðis­manna greini­lega hafa haft á­hrif á störf þeirra og veltir því upp hvort það sé orðið al­gengt vanda­mál innan lög­reglunnar að lög­reglu­menn eigi við sönnunar­gögn.

Týpískur Brynjar

Fjölnir gefur lítið fyrir grein Brynjars: „Það er búið að út­skýra þetta allt saman og nefndin [nefnd um eftir­lit með lög­reglu] hefur ekki haldið því fram að lög­reglan hafi verið að reyna að leyna neinu.

Mér finnst þetta bara týpískur Brynjar. Hann er enn þá svona dá­lítill lög­fræðingur, alltaf að reyna að búa til vafa. Það er það eina sem hann gerir – að henda inn vafa og svona tékka á við­brögðunum.“

Hann segist ekki vilja fara í neitt stríð við Sjálf­stæðis­flokkinn en segir greini­legt að Brynjar sé með greininni að grafa undan lög­reglu­mönnunum til að verja sinn ráð­herra, sem var við­staddur sýninguna þar sem sótt­varna­lög voru brotin.

Á upp­tökum úr búk­mynda­vélum lög­reglu­mannanna segir annar þeirra að hann kannist við tvo gesti sam­kvæmisins og kallar þá: „sjálf­stæðis… svona… frama­potarar“. Nefnd um eftir­lit með lög­reglu (NEL) taldi þessi um­mæli á­mælis­verð.

For­maður NEL sagði við vísi í gær að þessi um­mæli lýstu for­dómum lög­reglu­mannsins gagn­vart þeim sem hann átti við í út­kallinu. Brynjar er greini­lega sam­mála því og gagn­rýnir hann lög­reglu­mennina harð­lega fyrir störf sín um­rætt kvöld.

Lögreglumenn fara ekki á staðinn að eigin frumkvæði

„Ég held að Brynjar Níels­son sé nú ekki það við­kvæmt blóm að hann teldi það for­dóma ef ein­hver kallaði hann frama­potara,“ segir Fjölnir við Vísir. „Hann talar þarna um ein­hverja for­dóma í greininni en ég held að myndi ekki einu sinni lyfta auga­brún þótt ein­hver myndi segja þetta við hann.“

Hann segist þá viss um að við­horf lög­reglu­manna hafi ekki á­hrif á störf þeirra eins og Brynjar full­yrðir og þver­tekur fyrir að nokkur innan lög­reglunnar eigi við sönnunar­gögn.

„Lög­reglu­menn eru ekkert að fara á staðinn að eigin frum­kvæði. Þeir eru bara að sinna út­kalli sem kemur frá fjar­skipta­mið­stöðinni um brot á sótt­varna­reglum,“ segir Fjölnir. Málið sýni frekar að lög­reglu­menn telji alla jafna fyrir lögum og grípi í taumana sama hver eigi í hlut, þótt það sé ráð­herra.

„Og ég skil ekkert í Brynjari að vera að gefa það í skyn að lög­regla eigi við sönnunar­gögn. Og svo hugsar maður alltaf þegar Brynjar skrifar: Æ ég nenni nú ekki að fara að rífast við hann. En auð­vitað þarf ein­hver að svara þessu bulli.“


Tengdar fréttir

Minnti Áslaugu á að skipta sér ekki af rannsókn málsins í símtalinu

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu minnti dómsmálaráðherra á að skipta sér ekki af rannsókn málsins í símtali síðdegis á aðfangadag vegna dagbókarfærslu sem lögreglan skrifaði um fjármálaráðherra í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Þetta sagði lögreglustjórinn á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í mars.

Sam­­tal lög­­reglu­mannanna hafi lýst for­dómum

For­maður nefndar um eftirlit með lög­reglu (NEL) segir ljóst að sam­tal lög­reglu­mannanna tveggja við Ás­mundar­sal, sem nefndin taldi á­mælis­vert, hafi ekki verið per­sónu­legt. Það hafi snúið beint að þeim sem lög­regla hafði af­skipti af á vett­vangi, lýst for­dómum og því fullt til­efni fyrir nefndina að fjalla sér­stak­lega um það.

Telur mögu­legt að lög­regla hafi átt við fleiri upp­tökur

Nefnd um eftir­lit með lög­reglu skoðar nú hvort til­efni sé til að taka aftur upp fjögur mál eftir að í ljós kom að lög­reglan getur sjálf átt við upp­tökur búk­mynda­véla sinna. Skúli Þór Gunn­steins­son, for­maður nefndarinnar, vill ekki upp­lýsa um hvaða mál þetta séu á þessu stigi því nefndin hefur ekki enn tekið form­lega á­kvörðun um fram­haldið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×