Innlent

Svandís segir það í skoðun að flytja rannsóknirnar aftur heim

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir nú að það hafi allan tímann verið talið best að rannsóknunum yrði sinnt hérlendis. Sú staðhæfing er hins vegar í engu samræmi við framgang málsins síðasta ár.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir nú að það hafi allan tímann verið talið best að rannsóknunum yrði sinnt hérlendis. Sú staðhæfing er hins vegar í engu samræmi við framgang málsins síðasta ár. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðherra segist hafa það til skoðunar að flytja rannsóknir á leghálssýnum aftur heim frá Danmörku. Hún segir það þó krefjast mikils undirbúnings.

Frá þessu greinir RÚV en Svandís ræddi við Morgunútvarp Rásar 2 í morgun.

Flutningi rannsóknanna hefur verið harðlega mótmælt af konum og heilbrigðisstarfsmönnum en meirihluti fagráðs um leghálsskimanir mælti með því að þær yrðu gerðar á Landspítala.

Samningurinn við Hvidovre-sjúkrahúsið er með þriggja mánaða uppsagnarfrest.

Svandís sagði í samtalinu við RÚV að það hefði verið rætt við heilsugæsluna og Landspítalann að flytja rannsóknirnar aftur heim en heimildarmenn innan spítalans sem Vísir ræddi við í gær könnuðust ekki við að slíkt samtal væri í gangi.

„Við höfum raunar talið allan tímann að best færi á að þetta yrði gert hér en til þess þarf þennan undirbúning. Það er ekki eins og Landspítalinn geti tekið við þessu á einum degi,“ hefur RÚV eftir Svandísi.

Hún segir tilkynningar að vænta á næstu dögum.

Lítill vilji til að halda rannsóknunum heima

Rétt er að geta þess að Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu var á vordögum í fyrra falið að kannað það hvernig rannsóknum á leghálssýnum yrði hagað þegar skimunin færðist frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar um áramótin.

Um sumarið barst Landspítala erindi um mögulegan kostnað við framkvæmd rannsóknanna og í nóvember annað erindi þar sem forstjóri heilsugæslunnar spurði stjórnendur á spítalanum hvort þeir gætu tekið verkefnið að sér en lítill tími var þá til stefnu.

Þrátt fyrir að Landspítalinn gæfi jákvætt svar var engu að síður samið við rannsóknarstofuna á Hvidovre-sjúkrahúsinu og meðal annars vísað til gæða og kostnaðar til að rökstyðja þá ákvörðun.

Þeir sem Vísir hefur rætt við um málið hafa allir verið á því að ekkert hafi verið gert í aðdraganda flutnings verkefnisins til að stuðla að því að rannsóknirnar yrðu framkvæmdar hér á landi, hvorki af hálfu heilsugæslunnar né heilbrigðisráðuneytisins.


Tengdar fréttir

Heilsugæslan segist ekki „henda“ sýnum

Forsvarsmenn Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu segjast ekki „henda“ sýnum sem berast Samhæfingarstöð krabbameinsskimana. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef heilsugæslunnar.

Með frumubreytingar og einkenni en sýninu engu að síður hent

Kona sem greindist með frumubreytingar í leghálsi í júní í fyrra og hefur verið með dæmigerð einkenni leghálskrabbameins fær sýnið sitt ekki rannsakað. Ákvörðun þess efnis var tekin af Kristjáni Oddssyni, yfirmanni Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.