Taney, sem lést árið 1864, samþykkti í dómaratíð sinni úrskurðinn sem kenndur er við þrælinn Dred Scott. Scott leitaði á sínum tíma til dómstóla og krafðist þess að verða frjáls maður þar sem hann byggi í ríki þar sem bann var lagt við þrælahald. Málið kom til kasta Hæstaréttar Bandaríkjanna þar sem hann beið lægri hlut.
Reuters segir frá því að auk brjóstmyndarinnar af Taney standi til að fjarlægja fleiri styttur og brjóstmyndir úr þinghúsinu. Taney var forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna á árunum 1836 til 1864, en áður hafði hann meðal annars gegnt embætti fjármála- og dómsmálaráðherra landsins.
Í stað brjóstmyndarinnar af Taney stendur til að koma fyrir styttu af Thurgood Marshall, fyrsta svarta dómaranum við Hæstarétt Bandaríkjanna, sem lést árið 1993.

Segja málið dæmi um ríkjandi slaufunarmenningu
Mikill fjöldi þingmanna var á móti því að láta fjarlægja styttuna af Taney. Þannig segir Mo Brooks, þingmaður Repúblikana frá Alabama, málið dæmi um svokallaða „slaufunarmenningu“ (e. cancel culture) og endurskoðunar á sögunni, framkvæmd af fólki sem telst til „elítu“ og þykist vita allt betur en venjulegir borgarar.
Alls greiddu 285 þingmenn atkvæði með ályktuninni og 120 lögðust gegn henni.
Auk brjóstmyndarinnar af Taney stendur samkvæmt ályktuninni til að fjarlægja styttur af þremur þingmönnum sem vörðu þrælahald og aðskilnað kynþátta, þeim John C. Calhoun, Charles Aycock og James P. Clarke.