Erlent

Ekkja McAfee kennir Bandaríkjastjórn um dauða hans

Kjartan Kjartansson skrifar
Janice McAfee þerrar tárin þegar hún ræðir við fjölmiðlamenn við fangelsið þar sem eiginmaður hennar fannst látinn í Barcelona á Spáni.
Janice McAfee þerrar tárin þegar hún ræðir við fjölmiðlamenn við fangelsið þar sem eiginmaður hennar fannst látinn í Barcelona á Spáni. AP/Joan Matue

Dauði Johns McAfee, hugbúnaðarfrömuðsins umdeilda, í spænsku fangelsi er á ábyrgð Bandaríkjastjórnar, að sögn ekkju hans. McAfee beið framsals til Bandaríkjanna fyrir skattsvik og fleiri brot þegar hann stytti sér aldur.

Janice McAfee krefst ítarlegrar rannsóknar á dauða eiginmanns síns í fangelsi í Barcelona á miðvikudag. Spænsk yfirvöld segja að svo virðist sem að McAfee hafi hengt sig í fangaklefa sínum. Fyrr um daginn hafði þarlendur dómstóll fallist á framsal hans til Bandaríkjanna.

Ekkjan segist hafa rætt við McAfee í síðasta skipti nokkrum klukkustundum áður en hann fannst látinn.

„Hinstu orð hans við mig voru: „Ég elska þig og ég hringi í þig í kvöld“. Þessi orð eru ekki orð manns sem er í sjálfsvígshugleiðingum,“ sagði Janice McAfee, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Sagðist hún kenna Bandaríkjastjórn og pólitískum ákærum gegn McAfee um hvernig fór. Sendiráð Bandaríkjanna á Spáni segist fylgjast grannt með rannsókn yfirvalda þar á dauða McAfee en vildi ekki tjá sig frekar um málið.

Reuters segir að sjálfsvígstíðni í spænskum fangelsum hafi reynst afar há í skýrslu Evrópuráðsins í fyrra en það þýðir að þau voru 25% tíðari en miðgildið í Evrópu. McAfee deildi klefa með öðrum fanga en var einn þegar hann lést. Enn er beðið niðurstöðu krufningar á líki hans.

McAfee auðgaðist á fyrsta veiruvarnarforritinu sem kom á almennan markað og var kennt við hann á 9. áratugnum. Seldi hann fyrirtækið fyrir hundruð milljónir dollara og lifði eftir það skrautlegu lífi. Hann var meðal annars grunaður um að eiga þátt í dauða nágranna síns á Belís og var síðar handtekinn með mikið magn skotvopna um borð í snekkju í Dóminíska lýðveldinu.

Í Bandaríkjunum var McAfee sakaður um svik í tengslum við rafmyntir og að standa ekki skil á skatti af milljónum dollara í tekjur sem hann hafði af ráðgjafarstörfum og fleiru.


Tengdar fréttir

Umdeildur tæknifrömuður fannst látinn í fangelsi

John McAfee, bandaríski tæknifrömuðurinn, fannst látinn í fangaklefa sínum á Spáni skömmu eftir að þarlendur dómstóll heimilaði framsal hans til Bandaríkjanna. McAfee átti að hafa falið sig um tíma á Dalvík þegar hann var á flótta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×