Erlent

Morðingi Floyd í meira en 22 ára fangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Derek Chauvin í réttarsalnum í Hennepin-sýslu þar sem refsing hans var ákvörðuð í dag.
Derek Chauvin í réttarsalnum í Hennepin-sýslu þar sem refsing hans var ákvörðuð í dag. Vísir/AP

Derek Chauvin, fyrrverandi lögreglumaður í Minneapolis, var dæmdur í 22 og háfs árs fangelsi fyrir að verða George Floyd að bana með því að krjúpa á hálsi hans í fyrra. Drápið á Floyd varð kveikjan að miklum mótmælum í Bandaríkjunum og víða um heim.

Dómarinn í málinu dæmdi Chauvin til strangari refsingar en refsiramma brotanna sem hann var sakfelldur fyrir vegna alvarleika þeirra. Hann gekk þó ekki jafnlangt og saksóknarar vildu en þeir kröfðust þess að Chauvin yrði dæmdur í þrjátíu ára fangelsi.

Chauvin var sakfelldur fyrir manndráp án ásetnings og af gáleysi. AP-fréttastofan segir að Chauvin gæti fengið reynslulausn þegar hann hefur afplánað fimmtán ár ef hann hegðar sér vel í fangelsi. Hann er 45 ára gamall.

Atvikið þegar Chauvin hélt hné sínu á hálsi Floyd, 46 ára gamals blökkumanns, í níu og hálfa mínútu náðist á myndbandsupptöku sem fór sem eldur í sinu um heimsbyggðina. Á henni sást að Chauvin skeytti engu um að Floyd reyndi að gera honum ljóst að hann næði ekki andanum og mótbárur vegfarenda.

Fyrir dómsuppkvaðninguna lýsti Chauvin samúð sinni með fjölskyldu Floyd en það var í fyrsta skipti sem hann tjáði sig við réttarhöldin. Hann gæti enn átt yfir höfði sér frekari refsingu í máli sem alríkisstjórnin hefur höfðað gegn honum vegna brota á borgararéttindum Floyd.

Réttað verður yfir þremur öðrum fyrrverandi lögreglumönnum sem stóðu hjá á meðan Chauvin varð Floyd að bana í mars. Þeir eru sakaðir um hlutdeild í drápinu. Þeirra bíða einnig alríkisákærur fyrir að brjóta gegn borgararéttindum Floyd.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×