Fótbolti

Ekki óeðlilegt ef Sverrir hefði skorað þrennu

Sindri Sverrisson skrifar
Heimir Guðjónsson og hans menn eru komnir áfram í Mjólkurbikarnum. Dregið verður í 16-liða úrslit á mánudaginn.
Heimir Guðjónsson og hans menn eru komnir áfram í Mjólkurbikarnum. Dregið verður í 16-liða úrslit á mánudaginn. vísir/vilhelm

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, var ekkert að missa sig af gleði yfir því að hafa komist áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins í fótbolta í kvöld. Hann sagði þó seinni hálfleik sinna manna gegn Leikni hafa verið fínan.

Valur vann 2-0 sigur. Guðmundur Andri Tryggvason skoraði strax á áttundu mínútu og lagði svo upp laglegt skallamark Sverris Páls Hjaltested á 75. mínútu.

„Hugarfarið í fyrri hálfleik var ekki til útflutnings. Það hefði átt að hjálpa okkur að komast snemma yfir, við hefðum getað fylgt því eftir, en við gerðum það ekki. Seinni hálfleikur var betri en á móti kemur, eins og ég sagði fyrir leik, að Leiknisliðið er hörkugott lið, vel skipulagt og erfitt að eiga við,“ sagði Heimir sem hefur mátt venjast því í sumar að sjá sína menn vinna leiki þó að þeir yfirspili ekki endilega andstæðingana:

„Það hefur gengið fínt. Mér fannst við spila vel í seinni hálfleik og Sverrir skoraði gott mark. Það hefði ekki verið neitt óeðlilegt ef hann hefði skorað þrennu í þessum leik. Hann fékk góð færi en hann [Guy Smit] varði vel í markinu hjá þeim,“ sagði Heimir um hinn tvítuga Sverri Pál sem var lítið í umræðunni áður en knattspyrnusumarið hófst en hefur spilað tíu leiki það sem af er tímabili fyrir Íslandsmeistarana.

„Sverrir sleit krossbönd fljótlega eftir að ég kom í Val og var frá í einhverja tíu mánuði. En hann er duglegur og leggur sig fram, og það er alltaf góð byrjun. Svo getum við unnið með hitt,“ sagði Heimir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.