Enski boltinn

Luiz Suarez: Ég get ekki spilað á móti Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez fagnar marki með Liverpool þar sem hann spilaði á árunum 2010 til 2014 og varð að heimsklassa framherja.
Luis Suarez fagnar marki með Liverpool þar sem hann spilaði á árunum 2010 til 2014 og varð að heimsklassa framherja. Getty/Laurence Griffiths

Atletico Madrid framherjinn Luis Suarez hefur afskrifað möguleikann á því að spila í ensku úrvalsdeildinni af einfaldri ástæðu.

Suarez getur ekki hugsað sér að spila á móti sínu gamla félagi í ensku úrvalsdeildinni.

Suarez lék með Liverpool í fjögur ár frá 2010 til 2014 og skoraði þá 82 mörk í 133 leikjum með enska liðinu.

Suarez fór á kostum tímabilið 2013-14 þegar Liverpool var svo nálægt því að vinna enska meistaratitilinn áður en liðið klúðraði málunum undir lokin.

Suarez fagnar því að Liverpool hafi loksins unnið enska meistaratitilinn í fyrra en segist ekki vera á leiðinni aftur í ensku úrvalsdeildina.

„Ég get ekki spilað á móti Liverpool. Það væri of erfitt að spila fyrir einhverja aðra en Liverpool í ensku deildinni,“ sagði Luis Suarez í viðtali við World Soccer Magazine.

„Ég var í og er enn í góðu sambandi við stuðningsmenn Liverpool og það yrði mjög skrýtið að spila fyrir einhverja aðra. Það hefði verið sérstakt að vinna enska titilinn með Liverpool en ég ánægður með að bið þeirra sé á enda,“ sagði Suarez.

„Þeir líta út fyrir að vera með lið sem mun keppa um titlana á mörgum tímabilum til viðbótar þrátt fyrir að það tímabil sem er nú nýlokið hafi ekki gengið sem best. Þeir eru aftur komnir þar sem þeir eiga heima,“ sagði Suarez.

Luis Suarez hjálpaði Atletico Madrid að vinna spænsku deildina á sínu fyrsta tímabili með liðinu og hafði áður unnið spænsku deildina fjórum sinnum með Barcelona. Suarez hefur einnig unnið hollensku deildina og deildina í Úrúgvæ.

Suarez segist vera ánægður hjá Atletico Madrid.

„Ég nýt þessa að spila hér og við höfum komið okkur vel fyrir á Spáni. Það er engin ástæða fyrir mig að vera hugsa um að fara,“ sagði Suarez.

„Þegar ég hugsa um það hversu vel ég hef komið mér fyrir hjá Atletico og það traust sem ég fæ frá þjálfaranum þá var það auðveld ákvörðun fyrir mig að vera hér áfram,“ sagði Luis Suarez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×