Íslenski boltinn

Fyrsti leikur Óla Jó með FH og tveir Mjólkurbikarleikir í beinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Jóhannesson hefur unnið bikarinn tvisvar sem þjálfari Vals og einu sinni sem þjálfari FH.
Ólafur Jóhannesson hefur unnið bikarinn tvisvar sem þjálfari Vals og einu sinni sem þjálfari FH. vísir/bára

Níu leikir í 32 liða úrslitum Mjólkurbikar karla í fótbolta fara fram í kvöld og verða tveir þeirra verða í beinni útsendingu.

Pepsi Max deildar slagir Stjörnunnar og KA annars vegar og Keflavíkur og Breiðabliks hins vegar verða sýndir beint á Stöð 2 Sport 4.

Þrjú lið voru í gær þau fyrstu til að komast í sextán liða úrslitin en það voru Lengjudeildarlið Þórs frá Akureyri og svo 2. deildarlið Hauka og Völsungs.

Pepsi Max deildarliðin eru nú að koma inn í bikarkeppnina og sjö þeirra spila í kvöld. Hin fimm spila síðan annað kvöld.

Eitt af þeim sem spila í kvöld er lið FH sem er jafnframt að spila sinn fyrsta leik eftir að Ólafur Jóhannesson tók við liðinu á nýjan leik. FH fær þá Njarðvík í heimsókn en þjálfarinn gestanna er hinn gamalreyndi Bjarni Jóhannsson.

Það er líka athyglisverður leikur á milli ÍA, neðsta liðsins í Pepsi Max deildinni, og Fram, efsta liðsins í Lengjudeildinni. Skagamenn hafa aðeins unnið einn af fyrstu níu deildarleikjum sínum en Framarar hafa unnið alla sjö deildarleiki sína.

HK tekur síðan á móti Gróttu, sem féll einmitt úr Pepsi Max deildinni síðasta haust.

Fjórir leikir hefjast klukkan 18.00 og einn þeirra leikja er viðureign Stjörnunnar og KA í Garðabænum sem er á Stöð 2 Sport 4.

Fjórir leikir eru síðan klukkan 19.15 og lokaleikur kvöldsins er síðan viðureign Keflavíkur og Breiðabliks í Keflavík sem hefst klukkan 20.00 og er hann sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.

Öll 32 liða úrslitin verða síðan gerð upp í Mjólkurbikarmörkunum annað kvöld en þá verður leikur Vals og Leiknis sýndur beint á undan.

Leikir dagsins í Mjólkurbikar karla í fótbolta:

 • Klukkan 18.00
 • Afturelding-Vestri
 • KFS-Víkingur Ó.
 • ÍR-ÍBV
 • Stjarnan-KA
 • Klukkan 19.15
 • ÍA-Fram
 • HK - Grótta
 • FH- Njarðvík
 • Augnablik-Fjölnir
 • Klukkan 20.00
 • Keflavík- Breiðablik

Mjólkurbikarinn er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Mjólkurbikarinn er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.