Erlent

Neita yfirvöldum um heimild til að nota brómódíólón gegn músaplágunni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Yfirvöld segja músafaraldurinn fordæmalausan.
Yfirvöld segja músafaraldurinn fordæmalausan. AP/Rick Rycroft

Ástralska stofnunin sem hefur eftirlit með notkun dýralyfja og meindýraeiturs hefur hafnað umsókn yfirvalda í Nýju Suður Wales um að fá að nota brómadíólón til að vernda uppskeru frá músaplágu í ríkinu.

Brómódíólón kemur í veg fyrir upptöku K vítamíns í líkamanum, sem er nauðsynlegur þáttur í storknun blóðsins. Þegar það er notað sem meindýraeitur getur það valdið því að dýrum á borð við mýs og rottur blæðir út á aðeins um sólahring en það er illa séð sökum þess að það getur borist í önnur dýr sem leggja sér nagdýrin til munns.

Þar ber meðal annars að nefna arnar- og uglutegundir en vísindamenn og umhverfisverndarsinnar hafa einnig lýst áhyggjum yfir því að aukin notkun brómódíólóns í Ástralíu gæti haft afar skaðvænleg áhrif á nokkrar tegundir páfagauka.

Adam Marshall, landbúnaðarráðherra Nýju Suður Wales, hafði áður lýst því  yfir að yfirvöld hefðu tryggt sér 10 þúsund lítra af brómódíólóni til að „napalm-sprengja mýs“ í sveitum ríkisins en segist nú munu hlíta ákvörðun eftirlitsstofnunarinnar.

Eftirlitsstofnunin hefur heimilað notkun sink-fosfats, sem hefur einnig skaðleg áhrif á umhverfið en er ekki jafn langvirkandi.

Hinn yfirstandandi músafaraldur hefur valdið gríðarlegri eyðileggingu á uppskeru í Nýju Suður Wales og skemmdum á heimilum, byggingum og vélbúnaði. Þá hafa fregnir borist af hrúgum af dauðum músum, bitnum börnum og óvelkomnum bólfélögum.

Mýsnar hafa valdið gríðarlegu tjóni á uppskeru og ýmsum vélbúnaði.AP/Rick Rycroft


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×