Erlent

Vilja setja Kóral­rifið mikla á hættu­lista

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þessi skjaldbaka skeytir eflaust litlu um afstöðu ástralskra stjórnvalda til hugmynda UNESCO.
Þessi skjaldbaka skeytir eflaust litlu um afstöðu ástralskra stjórnvalda til hugmynda UNESCO. Jonas Gratzer/LightRocket via Getty

Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, og áströlsk stjórnvöld deila enn um stöðu Kóralrifsins mikla sem er að finna norðaustur af meginlandi Ástralíu.

UNESCO hefur nú talað fyrir því að bæta Kóralrifinu á lista yfir staði á heimsminjaskrá stofnunarinnar sem séu í sérstakri hættu, en loftslagsbreytingar eru sagðar ógna líffræðilegum fjölbreytileika rifsins.

Áströlsk stjórnvöld hafa lagst eindregið gegn hugmyndum forsvarsmanna UNESCO sem hafa hvatt Ástrali til að grípa til harðari aðgerða til að bregðast við loftslagsbreytingunum með því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Síðustu ár hefur orðið mikil kóralbleiking í rifinu sem rekja má til hækkandi hitastigs og súrnun sjávar sem hefur fengið UNESCO til að þrýsta á breytingar varðandi stöðu Kóralrifsins mikla. Hópar náttúruverndarsinna hafa fagnað hugmyndum UNESCO og segja þær skýrt merki þess að stefna Ástralíu í loftslagsmálum sé ekki nógu afgerandi.

Áströlsk stjórnvöld hafa hins vegar brugðist nokkuð harkalega við hugmyndunum og segja þær vera skref sem forsvarsmenn Sameinuðu þjóðanna hefðu lofað að yrði ekki tekið.

„Loftslagsbreytingar eru stærsta ógnin við kórallífríki jarðarinnar og það eru 83 náttúrufyrirbæri á heimsminjaskrá sem er ógnað af þeim. Því er ekki sanngjarnt að einblína sérstaklega á Ástralíu,“ hefur breska ríkisútvarpið eftir Sussan Ley, umhverfisráðherra Ástralíu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.