Fótbolti

Grindavík lagði 10 Gróttumenn í lokin - Martin með tvö í Mosfellsbæ

Valur Páll Eiríksson skrifar
grindavik_leiknirr_020616_018

Grindavík fór upp fyrir Kórdrengi í annað sæti Lengjudeildar karla í fótbolta í kvöld eftir 3-1 sigur á Gróttu. Þá voru sex mörk skoruð í Mosfellsbæ.

Kórdrengir fóru upp í annað sætið fyrr í kvöld með 1-0 sigri á Þór, en á sama tíma vann ÍBV 1-0 sigur á Fjölnismönnum sem voru í öðru sætinu fyrir umferðina.

Það entist ekki nema í um klukkustund þar sem Grindavík hirti annað sætið af þeim með 3-1 sigrinum á Gróttu. Staðan var 1-1 eftir mörk frá Sigurði Hallssyni fyrir Grindavík og Pétri Theodóri Árnasyni fyrir Gróttu þegar komið var fram á 86. mínútu. Þá fékk Arnar Þór Helgason að líta rautt spjald í liði Gróttu. Grindvíkinar gengu á lagið í kjölfarið og tryggðu mörk Sigurjóns Rúnarssonar og Sigurðar Hallssonar heimamönnum 3-1 sigur.

Grindavík er þá komið með 15 stig í öðru sætinu, stigi á undan Kórdrengjum í 3. sætinu. Grótta er hins vegar með átta stig í sjöunda sæti.

Samtímis fór fram leikur Aftureldingar og Selfoss í Mosfellsbæ. Tvö mörk Pedro Vázquez snemma leiks komu Aftureldingu í 2-0 en Gary Martin skoraði tvö mörk fyrir gestina fyrir leikhlé, staðan 2-2.

Ingvi Óskarsson kom Selfossi þá yfir á 67. mínútu áður en Kári Hlífarsson tryggði heimamönnum stig með marki á 81. mínútu.

Afturelding er með sex stig í níunda sætinu en Selfoss með fimm stig sæti neðar, aðeins stigi frá Þrótti sem er í fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×