Enski boltinn

Benítez gæti orðið næsti stjóri Gylfa

Sindri Sverrisson skrifar
Rafael Benítez gæti snúið aftur í enska boltann, þar sem hann hefur stýrt Liverpool, Chelsea og Newcastle.
Rafael Benítez gæti snúið aftur í enska boltann, þar sem hann hefur stýrt Liverpool, Chelsea og Newcastle. Getty/Stu Forster

Til greina kemur að Rafael Benítez, fyrrverandi knattspyrnustjóri Liverpool, verði næsti stjóri Everton. Nuno Espirito Santo er þó talinn líklegastur til að taka við starfinu.

Þetta fullyrðir BBC í dag og segir að Benítez hafi átt í viðræðum við Everton. Hann starfaði síðast í Englandi þegar hann stýrði Newcastle árin 2016-19. Eftir það tók hann við Dalian Professional í Kína en hætti þar í janúar og bar því að hann vildi tryggja betur öryggi fjölskyldu sinnar vegna kórónuveirufaraldursins.

Benítez hefur áður unnið í Liverpool-borg þegar hann stýrði helstu erkifjendum Everton á árunum 2004-2010, þar sem hæst bar sigur í Meistaradeild Evrópu árið 2005. Benítez gæti því orðið fyrstur til að stýra bæði Liverpool og Everton.

Nuno þykir þó eins og fyrr segir enn líklegastur til að stýra Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum næstu misseri. Hann hætti hjá Wolves eftir nýafstaðna leiktíð.

Everton er í leit að stjóra eftir að Carlo Ancelotti hætti til að taka við Real Madrid. Í grein BBC segir að forráðamenn félagsins vilji gefa sér góðan tíma og kanna vel sína kosti áður en lokaákvörðun um arftaka hans verði tekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×