Erlent

Maðurinn á bak við „stærstu fjölskyldu heims“ látinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjölskylda Ziona Chana fyrir áratug.
Fjölskylda Ziona Chana fyrir áratug. epa/STR

Ziona Chana, maðurinn á bakvið eina stærstu fjölskyldu heims, er látinn. Chana, sem er sagður hafa átt 38 konur, 89 börn og 36 barnabörn, var 76 ára.

Fregnirnar voru staðfestar af fyrsta ráðherra Mizoram-ríkis á Indlandi en Chana er sagður hafa þjáðst af undirliggjandi sjúkdómum, meðal annars sykursýki og háþrýsting. Hann var fluttur á sjúkrahús í gær og lést við komuna þangað.

Það er erfitt að fullyrða að fjölskylda Chana sé sannarlega sú stærsta í heimi, þar sem fleiri fjölskyldur gera kröfu til titilsins. Þá er ekki stærð fjölskyldunnar á reiki en að minnsta kosti einn indverskur miðill segir Chana hafa átt 39 konur, 94 börn, 33 barnabörn og eitt barnabarnabarn.

Það gera samtals 181.

Chana snæðir kvöldmat ásamt eiginkonum sínum.epa/STR

Fjölskyldan hefur vakið mikla athygli og margir ferðamenn heimsækja fjölskylduheimilið, sem er á fjórum hæðum og telur hundrað herbergi. Samkvæmt staðarmiðlum deila eiginkonur Chana nokkurs konar heimavist nærri svefnherbergi hans.

Eiginkonurnar og börn taka þátt í bænastund.epa/STR

Reuters segir Chana hafa verið fæddan árið 1945 og að hann hafi hitt fyrstu eiginkonu sína, sem er þremur árum eldri en hann, þegar hann var aðeins 17 ára.

Chana var leiðtogi kristilegs trúarsöfnuðar sem fjölskyldan tilheyrir. Fylgjendur hans eru um 2.000 talsins og búa allir í nágrenni við fjölskylduna í þorpinu Bktawng Tlangnuam. Söfnuðurinn var stofnaður af afa Chana árið 1942.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.