Erlent

Segja Úígúra útskrifaða úr fangabúðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Shohrat Zakir, ríkisstjóri Xinjiang.
Shohrat Zakir, ríkisstjóri Xinjiang. AP/Ng Han Guan
Yfirvöld Kína segja flesta Úígúra hafa „útskrifast“ úr fanga- og endurmenntunarbúðum í Xinjiang-héraði í Kína. Þar að auki verði framtíðar nemendum, eins og Shohrat Zakir, ríkisstjóri héraðsins, orðaði það, leyft að koma og fara að vild. Hann sagði sömuleiðis í morgun að áætlanir Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasamtaka um að frá einni til tveimur milljónum múslima hafi verið haldið í þessum búðum vera skáldskap.

Zakir beindi orðum sínum sérstaklega að Bandaríkjunum.

„Bandaríkin eru að verða óróleg og eiga í áróðursherferð gegn Xinjiang. Ekkert afl getur stöðvað árangur Xinjiang varðandi stöðugleika og framþróun,“ sagði Zakir samkvæmt Reuters.



Fulltrúadeild Bandaríkjanna fordæmdi nýverið aðgerðir yfirvalda Kína í Xianjiang en Zakir sagði þá fordæmingu vera brot á alþjóðalögum og alvarleg afskipti af innanríkismálum Kína. Ályktunin var samþykkt 407-1 og felur í sér að Donald Trump, forseti, fordæmi aðgerðirnar og viðskiptaþvingunum gegn háttsettum meðlimum Kommúnistaflokksins.

Múslimar skipa um rúman helming þeirra 25 milljóna sem búa í Xinjiang. Úígúrar eru langstærsti hópur múslíma en þeir tala tungumál sem byggir á tyrkensku. Þau hafa lengi mætt miklu mótlæti af yfirvöldum Kína og á móti hafa vígamenn oft gripið til ofbeldis þar og barist gegn ríkisstjórn Kína.

Búðir sem þessar hafa verið reistar víða um Xinjiang.AP/Ng Han Guan
Minnst milljón Úígúrar eru sagðir hafa verið fluttir í áðurnefndar búðir á undanförnum árum. Yfirvöld segja að þar fái fólkið starfsþjálfun, tungumálakennslu og geti betur aðlagast kínversku samfélagi. Fólk sem hefur sloppið úr búðum þessum hefur sagt að þar séu þau þvinguð til þess að afneita trú þeirra og lýsa yfir hollustu við yfirvöld Kína. Það er að segja, Kommúnistaflokkinn.

Fregnir hafa sömuleiðis borist af pyntingum og slæmum aðbúnaði.

Kínverjar hafa ítrekað neitað þessum ásökunum en hafa aldrei lagt fram nokkurs konar sannanir gegn þeim.

Í umfangsmiklum opinberum skjölum sem hefur verið lekið til New York Times kemur fram hvernig embættismenn skipulögðu aðgerðirnar og meðal annars hvernig svara ætti börnum þeirra sem færð voru í búðirnar.

Sjá einnig: Ofsóknir gegn Úígúrum - Áttu að vera þakklát fyrir að fjölskyldumeðlimir voru færðir í fangabúðir



Zakir sagði einnig að flestum hafi verið sleppt úr búðunum í júlí. Hann sagði sömuleiðis að barátta gegn hryðjuverkum í Kína væri ekki ófrábrugðin sömu baráttu í Bandaríkjunum. En á blaðamannafundinum sem fór fram í Peking í morgun voru sýndar myndir frá hryðjuverkaárásum í Xinjiang.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×