Erlent

Trudeau fordæmir huglausa morðárás á múslimska fjölskyldu

Heimir Már Pétursson skrifar

Forsætisráðherra Kanada segir morðárás á þrjár kynslóðir í sömu fjölskyldu í London-Ontario á sunnudag hafa verið grófa og huglausa. Grípa verði til aðgerða til að koma í veg fyrir að hatursglæpur sem þessi endurtaki sig.

Hinn tvítugi Nathaniel Veltman íbúi í bænum London í Ontario ríki í Kanada er í haldi lögreglu eftir að hafa ekið á palbíl á fimm fjölskyldumeðlimi í miðbænum á sunnudag. Þau sem létust voru Salman Afzal, Madiha eiginkona hans, Yumna 15 dóttir þeirra og sjötíu og fjögurra ára amma hennar sem ekki hefur verið nafngreind. Ungur drengur sem nefndur hefur verið Fayez slasaðist lífshættulega og er á sjúkrahúsi.

Justin Trudeau forsætisráðherra segir Kanadamenn aldrei mega venjast hatursglæpum.Abdulhamid Hosbas/Anadolu Agency via Getty Images

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada ávarpaði neðri deild kanadíska þingsins í dag vegna málsins.

„Þau voru myrt með grimmlegum, huglausum og svívirðilegum hætti. Þessi morð voru ekki tilviljun heldur hryðjuverkaárás framin á grunni haturs og heiftar í hjarta eins af samfélögum okkar,“ sagði Trudeau.

Fjöldi fólks sótti minningarathöfn í bænum London í gær um þau sem féllu í morðárásinni í bænum á sunnudag.Brett Gundlock/Anadolu Agency via Getty Images

Hin myrtu voru muslimatrúar og sagði Trudeau kanadísku þjóðina aldrei mega venjast hatursglæpum sem þessum. Ekki væri nóg að segja að nú væri nóg komið, heldur þyrfti að grípa til aðgerða. Morðinginn í London væri ekki fulltrúi kanadísku þjóðarinnar sem vissi að styrk væri að finna í friði en ekki hatri.

„En við vitum líka að við verðum að horfast í augu við sannleikann. Hatur og ofbeldi fyrirfinnst í landi okkar hvort sem það er á götum úti, á Netinu eða annars staðar. Á meðan það þrífst höfum við verk að vinna,“ sagði Justin Trudeau.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.