Enski boltinn

Bielsa sá um æfingu hjá ellefu ára liði Leeds

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcelo Bielsa gat ekki slappað af lengur en í tvær vikur.
Marcelo Bielsa gat ekki slappað af lengur en í tvær vikur. EPA-EFE/Martin Rickett

Marcelo Bielsa er einstakur knattspyrnustjóri og það hefur hann sýnt og sannað með því að koma Leeds United aftur í hóp bestu liða Englands.

Bielsa er samt orðinn 65 ára gamall og flestum þótti því ástæða fyrir hann að hvíla sig vel í sumar og safna kröftum fyrir næsta tímabil.

Lokaleikur Leeds liðsins á þessu tímabili var á móti West Bromwich Albion 23. maí en lærisveinar Bielsa unnu fjóra síðustu leiki sína og enduðu í níunda sæti, einu sæti ofar en Everton.

Bielsa hefur því fengið rúmar tvær vikur rúmar til að hvíla sig og þyrsti greinilega í að fara að þjálfa aftur.

Karlinn var nefnilega mættur á æfingu hjá ellefu ára liði Leeds í gærkvöldi og strákarnir fengu þar góð ráð frá þessum mikla meistara.

Bielsa verður kannski orðinn sjötugur þegar þessir strákar fara að banka á meistaraflokksdyrnar en það hlýtur að hafa verið mjög spennandi að sjá knattspyrnustjóra félagsins standa fyrir framan sig á æfingu.

Marcelo Bielsa var að klára sitt þriðja tímabil með Leeds en undir hans stjórn komst félagið upp í ensku úrvalsdeildina í fyrsta sinn í sextán ár. Hann hefur starfað við þjálfun frá því að hann gerðist yngri flokka þjálfari hjá Newell's Old Boys í Argentínu árið 1980.

Eftir tíu ár í unglingaþjálfun þá tók Bielsa við meistaraflokksliði Newell's Old Boys árið 1990 og hefur verið knattspyrnustjóri síðan hjá liðum í Argentínu, Mexíkó, Spáni og Frakklandi auk þess að stýra bæði landsliðum Argentínu og Síle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×