Innlent

Tveir beinbrotnir skipverjar fluttir á sjúkrahús

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglan sinnti ýmsum erindum í nótt sem leið.
Lögreglan sinnti ýmsum erindum í nótt sem leið. Vísir/Vilhelm

Lögreglu barst tilkynning um kl. 3.30 í nótt um að tveir skipverjar um borð í togara hefðu slasast. Togarinn var við veiðar en hélt í land með skipverjana, sem voru fluttir með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítala.

Báðir voru taldir vera með beinbrot. Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að um vinnuslys hafi verið að ræða. Það fari nú sína leið í rannsókn. Nánari upplýsingar sé ekki hægt að veita að svo stöddu.

Fyrr um nóttina var tilkynnt um líkamsárás í miðbænum, innbrot í hjólageymslu í Laugardal og skemmdarverk á bifreið í Hlíðum. Þá var aðstoðar óskað í Háaleitis- og Bústaðahverfi við að vísa ölvuðum einstakling úr verslun.

Um kvöldmatarleytið bárust tvær aðskildar tilkynningar um þjófnað úr verslun í Smáralind en í bæði skiptin var grunaði látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Þá var um svipað leyti tilkynnt um knapa sem féll af baki í Árbæ. Fann hann til eymsla eftir fallið og var fluttur á bráðamóttöku til skoðunar.

Fréttin var uppfærð með viðbrögðum lögreglu af slysinu á togaranum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×