Erlent

Kristilegir demókratar höfðu sigur í Sachsen-Anhalt

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Reiner Haseloff forsætisráðherra hér með Sven Schulze, leiðtoga flokksins í Sachsen-Anhalt.
Reiner Haseloff forsætisráðherra hér með Sven Schulze, leiðtoga flokksins í Sachsen-Anhalt. EPA/Filip Singer

Kristilegir demókratar í Þýskalandi fengu flest sæti í kosningum til ríkisþings í sambandsríkinu Sachsen-Anhalt í gær. Niðurstöðurnar fyrir flokkinn voru mun betri en kannanir bentu til.

Kristilegir demókratar, flokkur Angelu Merkel kanslara, fengu rétt rúm 37 prósent atkvæða og þar með töluvert fleiri þingsæti en næststærsti flokkurinn, það er öfgahægriflokkurinn AfD. Kannanir bentu reyndar ekki til þessarar niðurstöðu. Síðasta könnun INSA fyrir kosningarnar sýndi Kristilega demókrata til dæmis með 27 prósenta fylgi en AfD 26 prósent. Svipuð staða birtist í öðrum könnunum á lokaspretti kosningabaráttunnar.

Búist er við því að Reiner Haseloff haldi forsætisráðherrastólnum í Sachsen-Anhalt en sigurinn þykir afar þýðingarmikill fyrir Kristilega demókrata.

Paul Ziemiak, framkvæmdastjóri flokksins, segir skilaboðin skýr. Kristilegir demókratar hafi fengið sterkt umboð, flokkurinn sé langsterkasta stjórnmálaafl sambandsríkisins og niðurstaðan sé stórkostleg.

Tilefni til bjartsýni

Flokknum hefur gengið nokkuð illa í undanförnum ríkisþingskosningum en þetta voru síðustu slíku kosningarnar áður en kosið er á þýska sambandsþingið í september. Það verða fyrstu kosningar Kristilegra demókrata án Merkel í leiðtogasætinu í sextán ár. Armin Laschet, forsætisráðherra Norðurrín-Vestfalíu leiðir flokkinn.

Könnun INSA sem birt var á föstudag sýndi Kristilega demókrata með 26 prósenta fylgi á landsvísu. Jafnaðarmenn með sautján prósent, AfD og Frjálsir demókratar tólf prósent hvor en Græningjar mælast næststærstir með 21 prósent.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.