Erlent

Smituðum í Bret­landi fjölgar um 66 prósent á einni viku

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
100 þúsund manns greindust smitaðir af kórónuveirunni vikuna 23. til 29. maí. Það var 40 þúsund fleirum en vikuna þar áður. 
100 þúsund manns greindust smitaðir af kórónuveirunni vikuna 23. til 29. maí. Það var 40 þúsund fleirum en vikuna þar áður.  Vísir/EPA

Kórónuveirusmituðum hefur fjölgað gífurlega í Bretlandi undanfarnar vikur. Um 100 þúsund manns hafa greinst smitaðir af veirunni í Bretlandi frá 23. til 29. maí en vikuna þar áður greindust 60 þúsund manns.

Tölfræðistofnun Bretlands (ONS) segir að smituðum hafi fjölgað um allt að 66 prósent á milli þessara tveggja vikna. Mikill meirihluti þeirra sem greindist smitaður reyndist hafa smitast af Delta-afbrigði veirunnar, sem fyrst greindist á Indlandi.

Smituðum hefur fjölgað mest í Englandi og Wales. Samkvæmt nýjustu smittölum greindust 6.278 í gær, 954 liggja nú á sjúkrahúsi vegna Covid og 11 dóu.

Tölfræðistofnunin bendir þó á að ráðist hafi verið í skimunarátak eftir að áhyggjur komu upp um að Delta-afbrigðið væri í dreifingu í Bretlandi. Það gæti því þýtt að hlutfallslega fleiri séu að greinast smitaðir þó svo að raunverulega séu svipað margir smitaðir af veirunni og voru áður, þeir hafi bara ekki greinst.

Delta-afbrigði veirunnar er talið mun meira smitandi en önnur afbrigði hennar og sumir hafa jafnvel áhyggjur af því að bóluefni veiti ekki jafn mikla vörn gegn þessu afbrigði veirunnar og öðrum.


Tengdar fréttir

Segir Delta afbrigðið 30 til 100 prósent meira smitandi

Hið svokallaða Delta-afbrigði kórónuveirunnar SARS-CoV-2, áður kennt við Indland, er 30 til 100 prósent meira smitandi en Alfa-afbrigðið, áður kennt við Bretland. Þetta segir einn helsti sérfræðingur Breta í smitsjúkdómum.

Enginn dó á Bretlandi í fyrsta sinn frá mars í fyrra

Enginn dó Bretlandi vegna Covid-19 í gær, samkvæmt opinberum tölum dagsins. Það er í fyrsta sinn frá 7. mars í fyrra, áður en gripið var til fyrsta samkomubannsins á Bretlandi. Heilbrigðisráðherra Bretlands varar íbúa þó við því að baráttunni sé ekki lokið enn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×