Erlent

Biden lengir bannlista Trumps

Árni Sæberg skrifar
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci

Joe Biden undirritaði í gær forsetatilskipun þess efnis að fleiri kínverskum fyrirtækjum verði bætt á lista yfir fyrirtæki sem Bandaríkjamenn mega ekki fjárfesta í. 

Forveri Bidens, Donald Trump, setti bann á fjárfestingar Bandaríkjamanna í kínverskum fyrirtækjum í nóvember síðastliðnum. Upphaflega voru 31 fyrirtæki á listanum en nú hefur Biden bætt 28 fyrirtækjum á listann sem telur nú 59.

Biden vísar til hættu á njósnabrölti kínverskra stjórnvalda sem réttlætingu fyrir banninu. „Ákvörðunin heimilar Bandaríkjunum að banna, með hnitmiðuðum og nákvæmum hætti, bandaríska fjárfestingu í kínverskum fyrirtækjum sem grafa undan öryggi eða lýðræðislegum gildum Bandaríkjanna og bandamanna okkar,“ segir í fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu.

Kínverjar fordæma aðgerðirnar

Wang Wenbin, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, segir kínversk stjórnvöld mótmæla ákvörðuninni harðlega. Hún komi ekki einungis niður á lögvörðum réttindum og hagsmunum kínverskra fyrirtækja heldur einnig fjárfesta um allan heim. Þá segir hann Bandaríkin hafa með tilskipuninni bælt og hamlað kínversk fyrirtæki á óvæginn máta.

Viðbúið að Biden héldi stefnu Trumps

Rýnendur í alþjóðastjórnmál segja þessa tilskipun Bidens ekki koma á óvart. Viðbúið hafi verið að hann héldi sömu stefnu og Trump gagnvart Kína, allavega hvað varðar tækni og viðskipti. Þó megi búast við að Biden viðhaldi heilbrigðari samskiptum við Kína en forveri hann gerði.

Yfirvöld í Peking tilkynntu á fimmtudag að þau ættu nú í „venjulegum samskiptum“ við Bandaríkin. Þar vísa þau til nýlegra viðræðna varaforsætisráðherra Kína, Liu He, og Janet Yellen, seðlabankastjóra Bandaríkjanna. He lýsir Yellen sem „faglegri, heiðarlegri og uppbyggilegri.“ Það er greinilega viðmót sem hann upplifði ekki í forsetatíð Donalds Trump.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.