Erlent

Bid­en gef­ur eft­ir gagn­vart öld­ung­a­deild­inn­i

Árni Sæberg skrifar
Joe Biden lofaði miklum fyrirtækjaskattahækkunum í kosningabaráttu sinni.
Joe Biden lofaði miklum fyrirtækjaskattahækkunum í kosningabaráttu sinni. AP/Andrew Harnik

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur neyðst til að draga nokkuð úr áformum sínum um hækkun fyrirtækjaskatts og fjárveitingu í innviðauppbyggingu.

Eitt helsta kosningaloforð Joes Biden, fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í fyrra, var að veita rúmlega tveimur billjónum (e. trillion) dollara til innviðauppbyggingar. 

Eyðslu þessa lofaði hann að fjármagna að mestu leyti með hækkun fyrirtækjaskatta. Fyrirtækjaskattur í Bandaríkjunum er 21 prósent en Biden hugðist hækka hann upp í 28%.

Flestum var ljóst að Biden yrði ekki auðvelt að ná þessum markmiðum sínum þar sem Repúblikanar eiga helming almennra sæta í deildinni. Nú hafa samningaviðræður forsetans og þingmanna Repúblikanaflokksins hafist.

Biden viljugur til málamiðlunar

Repúblikanar eru ekki þekktir fyrir vilja sinn til skattahækkana og því hefur Biden þurft að falla frá áformum sínum þess efnis. Í stað hækkunar fyrirtækjaskatts verður settur á 15 prósent lágmarksskattur á fyrirtæki. Nokkuð hefur borið á því að bandarísk stórfyrirtæki borgi ekki einn einasta dollara í skatt af gríðarlegum tekjum. Því ætti lágmarksskattur að koma að góðum notum.

Repúblikanar eru ekki heldur á þeim buxunum að samþykkja tveggja billjóna dollara innviðafjárfestingu. Biden hefur því mætt þeim í miðjunni og mun einni billjón dollara vera varið í innviði á næstu átta árum. Helstu verkefni verða viðhald vegakerfisins og einangrun húsa. Biden telur einangrun húsa mikilvægt skref í baráttunni við loftlagsvána.

„Hann (Biden) leggur sig persónulega fram, er viljugur til málamiðlunar, ver tíma með öldungadeildarþingmönnum, jafnt Demókrötum sem Repúblikönum, til að komast að því hvað er mögulegt,“ er haft eftir Ginu Raimondo, viðskiptamálaráðherra Bandaríkjanna. Þá segir hún það eina sem Biden sætti sig ekki við sé aðgerðaleysi.

Uppfært klukkan 15:50: Í upphaflegri útgáfu þessarar fréttar var sagt að Repúblikanar hefðu meirhluta í öldungadeild Bandaríkjaþings. Þetta hefur verið leiðrétt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.