Þetta sýnir ný skýrsla sem fjallað er um í Guardian í dag en fundur þessara áhrifamiklu ríkja er nú framundan í Bretlandi.
Ríkin sjö, Bandaríkin, Bretland, Kanada, Ítalía, Frakkland, Þýskaland og Japan eyddu 189 milljörðum dollara til stuðnings olíu, kola og gasframleiðslu frá því í janúar 2020 og fram til marsmánaðar 2021.
Á sama tíma fóru 147 milljarðar til hreinnar orku.
Í skýrslunni segir meðal annars að fjárframlög til jarðefnaeldsneytisfrekra fyrirtækja, til dæmis flugfélaga, hafi í flestum tilvikum verið án skilyrða, til dæmis skuldbindinga til að draga úr losun og mengun.
Aðeins einn af hverjum tíu dollurum sem veittir voru til að bregðast við kórónuveirufaraldrinum rann til „hreinna“ orkuverkefna.
Boris Johnson forsætisráðherra Breta mun taka á móti kollegum sínum úr hópnum í Cornvall þann ellefta júní næstkomandi en hann hefur sagst vilja fá þjóðirnar til þess að sameinast um að byggja upp á grænan hátt eftir faraldurinn.