Enski boltinn

Patrice Evra gerir grín að Gallagher-bræðrum með eigin útgáfu af Wonderwall

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
evra (1)

Patrice Evra, fyrrverandi leikmaður Manchester United, birti myndband á Twitter í gær þar sem hann gerði stólpagrín að Gallagher-bræðrunum, Noel og Liam, fyrrverandi forsprökkum hljómsveitarinnar Oasis og stuðningsmönnum Manchester City.

Evra ákvað að nudda salti í sár þeirra eftir að City tapaði fyrir Chelsea, 1-0, í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu um helgina.

„Liam, hvar ertu? Manstu þegar þú hlóst að mér þegar United tapaði? Nú er röðin komin að þér,“ sagði Evra í myndbandinu. 

Þar sést hann undir stýri með hárkollu og sólgleraugu eins og Liam Gallagher var í myndbandinu við lagið vinsæla, Wonderwall, sem hljómar einmitt í bakgrunni.

„Ekki vera öfundsjúkur. Ég vildi bara deila. Þetta er sérstakur mánudagur fyrir þig Liam. Hættu að segja að Manchester sé blá. Ég á fleiri titla en allt félagið þitt! Noel, Noel!“

Evra syngur svo brot úr Wonderwall með breyttum texta eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.

Evra og Liam Gallagher áttu í smá rimmu á Twitter í fyrra þar sem Evra spáði því að City vinna aldrei vinna Meistaradeildina.

City komst í fyrsta sinn í úrslit keppninnar á nýafstöðnu tímabili en laut í lægra haldi fyrir Chelsea í úrslitaleiknum í Porto. United tapaði einnig úrslitaleik í Evrópudeildinni fyrir Villarreal eftir vítaspyrnukeppni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.