Innlent

Segir styttingu vinnu­vikunnar bjarnar­greiða

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tómas Guðbjarsson, hjartaskurðlæknir, segir styttingu vinnuvikunnar ekki hafa reynst heilbrigðisstarfsfólki vel.
Tómas Guðbjarsson, hjartaskurðlæknir, segir styttingu vinnuvikunnar ekki hafa reynst heilbrigðisstarfsfólki vel. Mynd/Kristinn Ingvarsson

Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir, segir að stytting vinnuvikunnar hafi reynst hinn mesti bjarnargreiði fyrir heilbrigðiskerfið. Mannekla hafi verið í heilbrigðiskerfinu fyrir en nú sé staðan enn verri.

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að einni skurðstofu á Landspítalanum á Hringbraut hafi verið lokað. Engar hjarta- og lungnaskurðaðgerðir eru því gerðar á spítalanum á fimmtudögum.

„Ástæðan er einföld – mikill skortur á starfsfólki en 11 stöðugildi hjúkrunarfræðinga vantar á deildina. Stytting vinnuvikunnar reyndist hinn mesti bjarnargreiði, líkt og fyrir hjúkrunarheimilin, og hefur aðeins gert erfitt ástand enn flóknara,“ skrifar Tómas á Facebook.

Hann segir að fyrir styttinguna hafi deildin verið vanmönnuuð og að kófið hafi orsakað viðvarandi álag á starfsfólk.

„Ég geri mér fulla grein fyrir hugmyndafræði styttingu vinnuvikunnar, þ.e. að eiga meiri frítíma og eyða honum með fjölskyldunni. En til þess að slík framkvæmd gangi upp þá verður að vera svigrúm í kerfinu – og tryggja að einhverjir geti tekið við þeim verkefnum sem bíða þegar færri eru í vinnu,“ skrifar Tómas.

Hann segir slíkan aukamannskap ekki að finna á skurðstofum Landspítala og að álagið aukist bara. Það muni koma aftur í bakið á starfsfólki og spítalanum með auknum fjarvistum vegna veikinda og hættu á kulnun.

„Það er flókið að ýta frá verkefnum á skurðstofum Landspítala og afleiðingar fyrirsjáanlegar – og að raungerast – þ.e. frekari lenging á þegar of löngum biðlistum. Sem er óásættanlegt.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×