Erlent

Ónæmið gæti varið í mörg ár

Samúel Karl Ólason skrifar
Tvær nýjar rannsóknir benda til þess að þeir sem hafi smitast af Covid-19 og svo seinna meir verið bólusettir, séu best varðir gegn Covid-19 til lengri tíma.
Tvær nýjar rannsóknir benda til þess að þeir sem hafi smitast af Covid-19 og svo seinna meir verið bólusettir, séu best varðir gegn Covid-19 til lengri tíma. Vísir/Vilhelm

Ónæmi gegn Covid-19 gæti verið út ævi flestra sem hafa smitast og fengið bólusetningu. Þetta er meðal niðurstaða í tveimur nýjum rannsóknum þar sem fólk sem smitaðist snemma í faraldri nýju kórónuveirunnar var skoðað.

Samkvæmt báðum rannsóknunum muna frumur í beinmerg fólks eftir veirunni og geta gefið frá sér mótefni eftir þörf. Samkvæmt annarri rannsókninni styrkjast þessi mótefni í minnst ár eftir upprunalegt smit eða bólusetningu.

Samkvæmt frétt New York Times um þessar rannsóknir þykir líklegt að þær muni hjálpa til við að kveða niður þann ótta fólks að Covid-19 muni herja reglulega á jarðarbúa, eins og hefðbundið kvef, sem kórónuveirur valda einnig.

Þær kórónuveirur breytast þó töluvert á nokkurra ára fresti.

Í samtali við New York Times segir vísindamaðurinn Michel Nussenzweig, sem kom að annarri rannsókninni, að hann búist við því að fólk sem hafi smitast og verið bólusett verði ónæmt til margra ára.

Hins vegar gæti verið að þeir sem hafi bara verið bólusettir verði ekki með jafn langvarandi vernd. Ónæmisminni virki á mismunandi hátt í tengslum við bólusetningar annarsvegar og náttúrulegt smit hins vegar.

Hann segir það þýða að mögulega muni fólk sem hafi bara verið bólusett þurfa aðra sprautu seinna meir. Það sé þó ekki ljóst enn, en ætti brátt að verða það.

Ekki allir sem hljóta vernd til lengri tíma

Í hinni rannsókninni greindu vísindamenn beinmerg úr nítján manns, um sjö mánuðum eftir að þau smituðust. Fimmtán þeirra báru enn mótefni gegn Covid-19 í frumum í beinmergnum en fjórir ekki.

Það þykir til marks um að það séu ekki allir sem smitast náttúrulega sem fái vernd til lengri tíma.


Tengdar fréttir

Þrír greindust innan­lands

Þrír greindust með kórónuveiruna innan­lands í gær. Tveir þeirra sem greindust voru í sóttkví en einn utan sóttkvíar. Fólki í sóttkvíar fjölgar mikið milli daga.

Meirihlutinn fellir grímuna en sprittstandarnir eru komnir til að vera

Framkvæmdastjóri Kringlunnar segist áætla að um fjórðungur viðskiptavina kjósi enn að bera grímu þrátt fyrir að grímuskylda í verslunum hafi verið afnumin. Markaðsstjóri Smáralindar segir það hafa komið á óvart hvað fólk var fljótt að fella grímuna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×