Enski boltinn

Solskjær: Nei, þetta var ekki gott tímabil

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær var gríðarlega svekktur í leikslok enda enn að bíða eftir sínum fyrsta titli sem knattspyrnustjóri Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær var gríðarlega svekktur í leikslok enda enn að bíða eftir sínum fyrsta titli sem knattspyrnustjóri Manchester United. EPA-EFE/Kacper Pempel

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, fór ekkert í felur með það að hann var ekki ánægður með árangur Manchester United liðsins á þessu tímabili.

United liðið er áfram titlalaust undir stjórn Norðmannsins eftir tap í vítakeppni á móti Villarreal í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í gærkvöldi.

Manchester United endaði í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni en hefur ekki unnið bikar síðan árið 2017.

Solskjær var spurður af því eftir úrslitaleikinn í gær hvort hann væri ánægður með árangur liðsins á tímabilinu.

„Nei,“ svaraði Ole Gunnar Solskjær við BT Sport. „Við verðum að verða betri,“ sagði Solskjær.

Liðið endaði tólf stigum á eftir Englandsmeisturum Manchester City en fimm stigum á undan Liverpool sem var í þriðja sæti. Liðið tapaði á móti Leicester City í átta liða úrslitum enska bikarsins og á móti Manchester City í undanúrslitum enska deildabikarsins. Liðið komst ekki upp úr sínum riðli í Meistaradeildinni en fór alla leið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

„Við höfum gert einkar vel í því að komast í gegnum erfiða byrjun. Það var ekkert undirbúningstímabil og við töpuðum þremur af fyrstu sex. Við komust nær toppnum í deildinni en við bjuggumst við og við komust í úrslitaleik. Þú þarf hins vegar að vinna úrslitaleiki til að eiga gott tímabil,“ sagði Solskjær.

„Við erum með góðan og samkeppnishæfan hóp. Andinn í liðinu er góður en þeir eru niðurbrotnir inn í klefa núna. Nú er ekki tími til að benda á það sem við hefðum átt að gera. Þegar þú kemur ekki heim með bikarinn þá hefur þú ekki gert neitt rétt,“ sagði Solskjær.

„Við erum að nálgast og erum að bæta okkur. Við vorum einu sparki frá bikar og góðu kvöldi. Það er ástríða í liðinu til að koma aftur á næsta tímabili og gera betur. Eina leiðin til að komast lengra er að leggja meira á sig,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×